Katrín Jakobsdóttir heiðruð af JCI
Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar, sem veitt eru árlega af JCI á Íslandi, eru hvatningarverðlaun til ungs fólks á aldrinum 18 til 40 ára, sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Í tilkynningu frá JCI kemur fram að verðlaunin séu hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem stefnir hátt og búast megi við að hafi áhrif í samfélaginu í framtíðinni. Auk þess vill JCI með verðlaununum beina athyglinni að því jákvæða, sem er að gerast í samfélaginu. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hlaut verðlaunin fyrir störf sín á sviði stjórnmála og aðrir verðlaunahafar voru Gunnar Nelson, íþróttamaður, Halldór Helgason, snjóbrettakappi og Leifur Leifsson, baráttumaður hreyfihamlaðra.
JCI (Junior Chamber International) er alþjóðlegur félagsskapur ungs fólk á aldrinum 18-40 ára sem vill efla hæfileika sína og félagslega færni og sjá jákvæðar breytingar í umhverfi sínu. Samtökin starfa í yfir 100 löndum og eru með yfir 200 þúsund meðlimi á heimsvísu.
Um verðlaunahafana segir m.a. í tilkynningu frá JCI:
- Gunnar Lúðvík Haraldsson Nelson fæddist 28. júlí 1988. Hann er í efsta sæti á heimslista íþróttavefjarins MMA Planet yfir efnilegustu íþróttamenn í blönduðum bardagaíþróttum. Gunnar er margfaldur Íslandsmeistari unglinga í karate (frjálsum bardaga) og hefur unnið til fjölda verðlauna í því, auk annarra bardagaíþrótta.
- Halldór Helgason fæddist 10. janúar 1991. Hann er ungur og efnilegur snjóbrettakappi, sem hefur gengið vel í erlendum keppnum. Árið 2010 vann hann t.d. gullverðlaun í Big Air á Vetrar X leikunum og er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur til verðlauna á þeim. Halldór hefur ásamt bróður sínum byggt upp fjögur fyrirtæki í kringum íþróttaiðkunina.
- Katrín Jakobsdóttir fæddist 1. febrúar 1976. Hún hefur verið í mörg ár leiðandi í íslenskum stjórnmálum þrátt fyrir ungan aldur. Hún er varaformaður eins af stærri stjórnmálaflokkunum á Íslandi og hefur gegnt embætti mennta- og menningarmálaráðherra undanfarin ár.
- Leifur Leifsson fæddist 22. september 1984. Hann hefur starfað mikið að hagsmunamálum fatlaðra og forsprakki í margvíslegum verkefnum, sem ætlað er að vekja athygli á því að fatlað fólk getur gert ýmislegt til jafns við ófatlaða, m.a. að fara upp á jökul á sérknúnum hjólastól, sem var knúinn með handafli.