Stefnir í Íslandsmet í komu ferðamanna um Reykjavíkurhöfn á mánudaginn
Þau hjá Reykjavíkurhöfn vita það víst manna best að sjaldan er ein báran stök og á mánudaginn lætur nærri að það sé hægt að tala um flóðbylgju í komu ferðamanna með skemmtiferðaskipum. Þá munu fjögur stór skemmtiferðaskip leggjast við bryggju í Reykjavíkurhöfn með samtals um 7.000 farþega.
Og það er ekki einvörðungu Reykjavíkurhöfn sem nýtur sífellt meiri vinsælda – Akureyri, Ísafjörður, Grundarfjörður, Vestmannaeyjar og Seyðisfjörður eru á meðal áfangastaða sem mörg skemmtiferðaskip heimsækja.
Fjöldi skemmtiferðaskipa sem sækja Ísland heim hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og í sumar sigla hátt í 80 skemmtiferðaskip til Reykjavíkur og heildarfarþegafjöldinn verður um 100.000. Það gerist ekkert af sjálfu sér og að baki þessum fjölda er markvisst kynningar- og markaðsstarf Reykjavíkurhafnar sem hefur meðal annars beinst að því að að fjölga skipunum og lengja jafnframt þann tíma sem þau stoppa og munu 20 skipanna liggja yfir nótt við bryggju. Þetta þýðir vitanlega meiri tekjur fyrir höfnina og ótal tækifæri fyrir þá fjölbreyttu flóru ferðaþjónustufyrirtækja sem bjóða ferðamönnunum þjónustu sína.
Þá hefur það farið vaxandi að farþegaskipti eigi sér stað í Reykjavík, þ.e. að farþegar komi flugleiðis til Íslands og taki skipsrúm farþega sem taka flugið til síns heima eftir vel heppnaða siglingu.