Afhending trúnaðarbréfs í Bosníu og Hersegóvínu
Hinn 8. júní afhenti Stefán Skjaldarson, sendiherra Íslands í Vín, Bakir Izetbegovic, forseta Bosníu og Hersegóvínu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart landinu. Í samtali við hann kom m.a. fram að samskipti Íslands og Borsníu og Hersegóvínu eru góð og hnökralaus. Lýsti forsetinn þakklæti fyrir framlag Íslands til friðarmála í Bosníu og Hersegóvínu og á Balkanskaga og einnig fyrir stuðning Íslands við stoðtækjagerð fyrir fórnarlömb hildarleiksins í landinu á tíunda áratug síðustu aldar. Þá kom fram að framtíðarsýn Bosníu og Hersegóvínu er að gerast fullur þátttakandi í Evrópusamvinnu með aðild að ESB.
Í samtölum sendiherra við fjölmarga embættismenn í utanríkisráðuneyti Bosníu og Hersegóvínu kom fram ákveðin bjartsýni um þróun mála í landinu þótt sumt þokist hægt. Framtíð landsins lægi í því að taka fullan þátt í Evrópusamvinnu og horfa til framtíðar fremur en fortíðar. Þótt ekki væri enn gróið um heilt væru samskipti milli hinna ýmsu þjóðernishópa smám saman að komast í eðlilegan farveg. Bosnía og Hersegóvína er ríflega 51 þúsund ferkílómetrar að stærð og fjöldi íbúa er ríflega 4,6 milljónir.
Auk þess að gegna hlutverki sendiráðs Íslands gagnvart Borníu og Hersegóvínu, gegnir sendiráð Íslands í Vín jafnframt hlutverki sendiráðs gagnvart Austurríki, Makedóníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi. Þá gegnir sendiráðið hlutverki fastanefndar gagnvart m.a. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE), Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA), Stofnuninni um bann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO), ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna (UNOV), Samtökum kjarnabyrgja (NSG) o.fl.