Breytingar á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda samþykktar
Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda. Breytingunum er ætlað að styrkja framkvæmd mála vegna bráðamengunar á sjó og að tryggja að brugðist sé við á viðeigandi hátt þegar bráðamengnun verður.
Breytingarnar eru tilkomnar vegna óskar Hafnarsambands Íslands um endurskoðun skipulags viðbragða vegna bráðamengunaróhappa innan hafnarsvæða. Meðal helstu nýmæla má nefna að í stað fimm svæðisráða sem nú eru starfandi kemur Mengunarvarnaráð hafna sem ætlað er að styrkja eftirlit og viðbrögð, ekki síst hvað varðar æfingar og búnað. Þá mun Umhverfisstofnun fá samræmingarhlutverk í samráði við mengunarvarnaráð hafna í því skyni að gera vinnubrögð og viðbrögð við óhöppum markvissari.
Í breyttum lögum er hafnarsvæði skilgreint sem umráðasvæði á sjó og landi sem hafnaryfirvöld annast. Markmiðið með þessari breytingu er að afmarka betur það svæði sem hafnarstjórar bera ábyrgð á varðandi viðbrögð við bráðamengun á sjó.
Lögin ráð fyrir að settar verði ítarlegri heimildir í reglugerð um flokkun hafna, tiltækan mengunarvarnabúnað, rekstur hans og notkun. Í henni verður mælt fyrir um lágmarksmengunarvarnabúnað sem skal vera tiltækur í hverri höfn. Verður það skylda hverrar hafnar að eiga slíkan búnað og sjá til þess að honum sé viðhaldið og hann tilbúinn til notkunar þegar á reynir.
Loks er í lögunum gerðar breytingar á ákvæðum er varða upplýsingagjöf og samvinnu eftirlitsaðila, stjórn á vettvangi og viðbragðsáætlanir.