Fyrsta stefnumörkunin um beina erlenda fjárfestingu samþykkt á Alþingi
Þingsályktunartillaga efnahags- og viðskiptaráðherra um opinbera stefnu um beina erlenda fjárfestingu á Íslandi var samþykkt á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum. Í þingsályktuninni er kveðið á um að efnahags- og viðskiptaráðherra ásamt iðnaðarráðherra skuli leggja fyrir Alþingi tímasetta áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands. Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld setja fram stefnu um erlenda fjárfestingu og markmiðin eru skýr og afdráttarlaus.
Í fyrsta lagi skal lögð áhersla á að bæta samkeppnishæfni Íslands þegar kemur að erlendum fjárfestingum. Farið verður yfir lög og reglugerðir sem málið varða og í framhaldinu lagðar fram tillögur til breytinga þar sem það á við.
Mikilvægi öflugs markaðs- og kynningarstarfs er áréttað í stefnunni. Núverandi tilhögun á markaðs- og kynningarstarfi vegna erlendra fjárfestinga verður gaumgæfð og leitað leiða til að nýta sem best fé sem varið er til markaðs- og kynningarmála til að auka fjölbreytni erlendrar fjárfestingar.
Þá er lögð mikil áhersla á að tryggja samhæfða stjórnsýslu. Farið verður gaumgæfilega yfir alla þætti stjórnsýslunnar til að einfalda hana og gera hana gegnsæja þannig að flöskuhálsar heyri sögunni til.
Grunnurinn að stefnunni var lagður í skýrslu nefndar sérfræðinga sem iðnaðarráðherra skipaði til að gera úttekt á stöðu erlendra fjárfestinga á Íslandi. Áður hafði Price Waterhouse í Belgíu unnið skýrslu fyrir Fjárfestingarstofu en þar kom fram að erlendar fjárfestingar á Íslandi voru hvoru tveggja einhæfar og litlar - ef frá eru skildar fjárfestingar í tengslum við einstaka stóriðjuframkvæmdir og gríðarlegar erlendar fjárfestingar í upptakti bankahrunsins.