VAKINN er vakinn og sofinn í að auka fagmennsku í ferðaþjónustunni
VAKINN er nýtt gæða- og umhverfiskerfi sem er ætlað að efla gæði og fagmennsku á sviði ferðaþjónustu. Gæðakerfi VAKANS er tvíþætt; annars vegar er um að ræða gæðaúttekt fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu og hins vegar stjörnuflokkun fyrir gististaði, svo sem hótel, gistiheimili, orlofshús, tjaldsvæði og fleira.
Viðtökur ferðaþjónustufyrirtækja hafa ekki látið á sér standa og hefur fjöldi fyrirtækja sótt um þátttöku. Þessa dagana er verið að fara yfir umsóknir og í byrjun júlí verða fyrstu fyrirtækin formlega tekin inn í VAKANN.
Þau fyrirtæki sem óska eftir þátttöku í VAKANUM þurfa að uppfylla auknar kröfur um gæði og öryggi, jafnt fyrir starfsfólk sem og viðskiptavini. Auk þess tekur VAKINN til aðbúnaðar, þjónustu við ferðamenn, þjálfun starfsfólks og umgengni við náttúruna svo fátt eitt sé nefnt.
Með innleiðingu Vakans munu aðilar í ferðaþjónustu geta markað sér skýrari stefnu og aukið færni sína við reksturinn. Þeir munu bæta öryggi og velferð gesta sinna sem og starfsmanna, auk þess sem þeir taka þátt í því að auka trúverðugleika íslenskrar ferðaþjónustu í heild. Verkefnið er leitt af Ferðamálastofu og hefur verið unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálasamtök Íslands og Nýsköpunarmiðstöð og þannig hefur skapast breið samstaða innan ferðaþjónustunnar um þennan mikilvæga málaflokk.
Allar upplýsingar má finna á vakinn.is.