Ríó+20 hefst á miðvikudag
Grænt hagkerfi, sjálfbær þróun og útrýming fátæktar eru efst á baugi á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Ríó+20, sem hefst á miðvikudag.
Stefnt er að því ráðstefnunni ljúki á föstudag með yfirlýsingu þjóðarleiðtoga og ráðherra í formi niðurstöðuskjals sem ber yfirskriftina „The future we want“. Það skiptist í sex hluta sem m.a. koma inn á endurnýjun pólitískra fyrirheita, umfjöllun um græna hagkerfið, sjálfbæra þróun, útrýmingu fátæktar, stofnanaumgjörð SÞ fyrir sjálfbæra þróun, aðgerðir og eftirfylgni og leiðir til framkvæmdar.
Ísland hefur tekið virkan þátt í undirbúningi og viðræðum fyrir ráðstefnuna og sett fjögur mál í forgang: endurnýjanlega orku, málefni hafsins, jafnréttismál, og landgræðslu og landnýtingu. Komið er inn á öll forgangsmál Íslands í tillögu að niðurstöðuskjali þar sem eru meðal annars sérstakir undirkaflar um orku, landnýtingu og landeyðingu, jafnréttismál og málefni hafsins. Þá er ætlunin að vekja sérstaka athygli á skýrslu nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi og þingsályktun Alþingis um sama efni sem samþykkt var fyrr í vetur.
Ein mikilvægasta tillagan sem til umræðu hefur verið er mótun svonefndra sjálfbærnimarkmiða (Sustainable Development Goals). Er hugmyndin sú að öll ríki heims geti notað markmiðin á leið sinni til sjálfbærrar þróunar og að skilgreindir verði sérstakir mælikvarðar til að meta árangur þeirra. Þessu tengt eru einnig tillögur um að notast við annan mælikvarða en landsframleiðslu til að mæla auð ríkja og hefur Ísland verið fylgjandi því.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra leiðir sendinefnd Íslands á ráðstefnunni. Auk hennar sækja fundinn fyrir Íslands hönd aðstoðarmaður umhverfisráðherra, fastafulltrúi Íslands hjá SÞ í New York, tveir starfsmenn úr utanríkisráðuneytinu, einn starfsmaður úr umhverfisráðuneytinu og einn úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þá verða einnig í sendinefndinni fulltrúi Náttúruverndarsamtaka Íslands, þrír fulltrúar frá Háskóla Íslands og ræðismaður Íslands í Ríó de Janeiró.
Ráðstefnan hefst sem fyrr segir miðvikudaginn 20. júní næstkomandi og stendur til 22. júní.