Kræklingatínsla, pönnsuveisla, fótabað og prjónakennsla fá gullverðlaun á Cannes auglýsingahátíðinni!
Gestrisni er Íslendingum í blóð borin og á auglýsingahátíðinni í Cannes hlaut Inspired by Iceland gullverðlaunin fyrir herferð sem byggir á sígildri íslenskri gestrisni.
Íslendingar voru hvattir til þess að mynda persónuleg kynni við ferðamenn og það stóð ekki á viðbrögðum og fjölmargir Íslendingar buðu erlendum ferðamönnum að verja með sér dagsparti og uppátækin voru eins misjöfn og þau voru mörg; forsetinn bauð í pönnukökuboð, iðnaðarráðherra skellti sér í fótabað á Seltjarnarnesi, borgarstjórinn bauð í sushi og ótal alþýðuhetjur buðu ferðmönnum í prjónakennslu, ísbíltúr, kræklingatínslu á einkatónleika og flest þar á milli!
Heimboð Íslendinga hafa vakið mikla athygli úti í hinum stóra heimi og fjölmiðlaumfjöllunin um land og þjóð í erlendum fjölmiðlum hefur verið gríðarleg. Heimboðin hafa því sannarlega skilað sínu í verkefninu "Ísland - allt árið", en markmið þess er að efla ímynd Íslands sem áfangastaðar og fjölga erlendum ferðamönnum utan háannar.
Og það stefnir í enn eitt Íslandsmetið í komu erlendra ferðamanna!