Hoppa yfir valmynd
20. júní 2012 Innviðaráðuneytið

Björgunarbúningar í alla smábáta

Innanríkisráðherra hefur staðfest reglur um að öll skip, sem falla undir gildissvið reglna um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, nr. 189/1994, með síðari breytingum, skuli vera búin björgunarbúningum fyrir alla um borð. Til að mæta þörfum þeirra smábátaeigenda tekur skyldan gildi í skrefum. Fyrir skip 8 m og lengri taka reglurnar gildi 1. janúar 2013 og fyrir skip styttri en 8 m 1. janúar 2014.

Þessar breyttu reglur eiga sér langan aðdraganda en á árinu 2004 voru til umfjöllunar tillögur í öryggismálum sjómanna sem Siglingastofnun Íslands gerði í framhaldi af málfundum um öryggismál sjómanna. Meðal tillagna Siglingastofnunar var að gera ætti kröfu um björgunarbúninga í smábátum, þ.e. skipum undir 12 m. Sú tillaga var studd af meirihluta siglingaráðs. Röksemdir sem færðar voru fyrir breyttum reglum voru þær að björgunarbúningar hefðu þegar sannað gildi sitt sem mikilvægur björgunarbúnaður sjómanna, þeir væru nú þegar um borð í fjölda smábáta og að ekki yrði um auknar skoðunarkröfur að ræða. Á móti voru færð þau rök að björgunarbúningar gætu mögulega rýrt öryggi sjómanna því að augnablikshik um hvort ætti að fara í björgunarbát eða björgunarbúning gæti skipt sköpum. Einnig væri lítið pláss um borð í mörgum smábáta og því væri ekki heppilegt að bæta við slíkum búnaði.

Í upphafi þessa árs hóf innanríkisráðuneytið vinnu við að breyta reglum nr. 189/1994 og gera öllum skipum, sem falla undir reglurnar, skylt að hafa björgunarbúninga fyrir alla um borð. Með tilliti til áðurnefndra röksemda voru ýmsar leiðir skoðaðar en að lokum var það niðurstaða ráðuneytisins að öll skip óháð stærð skyldu búin björgunarbúningum. Með aðlögunartíma er þess vænst að nægur tími gefist fyrir útgerðaraðila til að aðlagast nýju reglunum. Meiri tími er gefinn fyrir minnstu bátana þar sem þeim er vandasamara að uppfylla kröfurnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta