Stjórnvöld svara meðalgöngugreinargerð framkvæmdastjórnar ESB í Icesave-málinu
Íslensk stjórnvöld svöruðu í dag greinargerð framkvæmdastjórnarinnar sem meðalgönguaðila í Icesave-málinu. Þar með lýkur skriflegum hluta málflutnings í málinu en það verður flutt munnlega á dómþingi EFTA-dómstólsins í Lúxemborg þriðjudaginn 18. september nk.
Í greinargerð framkvæmdastjórnarinnar var í stórum dráttum tekið undir sjónarmið Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) varðandi tilskipun um innstæðutryggingar (obligation of result) og meinta mismunun. Þá mótmælti hún sérstaklega þeim vörnum sem lutu að óviðráðanlegum ytri aðstæðum (force majeure).
Í svari Íslands er sjónarmiðum framkvæmdastjórnarinnar harðlega mótmælt. Helstu efnisatriðin í málflutningi stjórnvalda eru eftirfarandi:
1. Misræmi í málflutningi ESA/framkvæmdastjórnar ESB
Málsmeðferðarreglur EFTA-dómstólsins gera ráð fyrir að meðalgönguaðili gangi inn í mál eins og það liggur fyrir dómstólnum til að styðja annan hvorn málsaðila. Það er því ekki á valdi framkvæmdastjórnarinnar að breyta þeim farvegi sem málið er í og henni væri t.d. óheimilt að færa fram aðrar kröfur eða málsástæður en ESA hefur uppi í málinu.
Í stefnu ESA frá því í desember sl. var á því byggt að á ríkinu hvíldi skylda til að leggja Tryggingarsjóðnum (TIF) til fé, ef allt um annað þryti. Á síðari stigum virðast hins vegar bæði ESA og framkvæmdastjórnin hafa fjarlægst þessa málsástæðu. Þau taka nú fram að það hvíli engin skylda á stjórnvöldum að leggja tryggingakerfinu til fé. Á þeim hvíli eingöngu skylda til að sjá til þess að tryggingakerfin geti risið undir skuldbindingum sínum. Stjórnvöld eigi hins vegar val um hvaða leið er farin í því skyni.
Íslensk stjórnvöld telja málflutning af þessu tagi lýsa skorti á skilningi á takmörkunum innstæðutrygginga. Það sé ekki nokkur leið að tryggja aðgang að fjármunum í gegnum tryggingasjóði þegar allt bankakerfið hrynur með fjármögnun frá einkaaðilum. Meira að segja óheftur aðgangur að ríkissjóði dugi ekki til að leysa úr neyð tryggingarsjóðs við slíkar aðstæður. Þessar takmarkanir dragi þó ekki úr gildi innstæðutrygginga. Líkt og gildi um allar tryggingar séu innstæðutryggingar gagnlegar við margvíslegar aðstæður, en gagnsemin takmarkist hins vegar alltaf við eignir vátryggjandans þegar tjónsatburður verður.
2. Reglur um ríkisstyrki
Framkvæmdastjórnin virðist ganga út frá að stuðningur við innstæðutryggingasjóði myndi vera tilkynningarskyldur samkvæmt ríkisaðstoðarreglum Evrópusambandsins. Slíkri aðstoð mætti þá ekki hrinda í framkvæmd, nema með samþykki framkvæmdastjórnarinnar eða ESA að því er EFTA-ríkin varðar. Ísland bendir á að framkvæmdastjórnin sé þar með komin í mótsögn við sjálfa sig, enda félli aðstoð af þessu tagi utan gildissviðs ríkisstyrkjareglna, ef skylt væri að leggja sjóðunum til fé samkvæmt tilskipun um innstæðutryggingar.
3. Áttu nýju bankarnir að borga brúsann?
Til að leysa úr þeim vanda sem felst í röksemdum framkvæmdastjórnarinnar um að engan stuðning þurfi frá ríkinu, hefur hún sett fram þá tillögu að stjórnvöld hefðu getað látið nýju bankana fjármagna bætur TIF til Icesave innstæðueigenda.
Þessi staðhæfing er allsendis óraunhæf enda um að ræða skuldbindingu sem hefði numið þriðjungi eigna nýju bankanna. Í raun hefði það gert þá óstarfhæfa frá fyrsta degi og stefnt endurreisnaráætlun stjórnvalda í uppnám. Þá er ljóst að efnahagsreikningar þeirra og mat á yfirfærðum eignum varð ekki til fyrr en um haustið 2009, þ.e. eftir að hið meinta brot átti sér stað.
Sérstök gagnaöflun hefur átt sér stað til að styðja röksemdir Íslands að þessu leyti. Í raun hefði slík aðgerð bara kallað á meiri fjármuni úr ríkissjóði, enda var ríkið sjálft eigandi nýju bankanna fram til áramóta 2009-2010.
4. Óraunhæf áhersla á innstæðutryggingar
Framkvæmdastjórnin tekur upp eftir ESA að innstæðutryggingakerfið sé mikilvægasta vernd neytenda (innstæðueigenda) og sú eina ef allt annað bregst. Sem fyrr bendir Ísland á að hugmyndir um þetta séu óraunhæfar og eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Reynslan sýni að öll ríki grípi til þeirra aðgerða sem þeim eru tiltæk til að sporna gegn kerfislægum vanda. Dæmi eru um að þau leggi bönkum til fé, flytji innstæður eða sameini banka til að koma í veg fyrir að aðgangur að innstæðum rofni. Líta beri á öll slík úrræði sem góð og gild þegar fjármálakerfi riðar til falls og að það sé þá viðkomandi ríkis að meta hvaða úrræði hæfi best þegar svo ber undir.
5. Tillögur um breytingar á innstæðutryggingatilskipuninni og ástandið í Evrópu
Talsverð umfjöllun er um stöðuna innan ESB og hvers vegna það er augljóst að hvorki innstæðutryggingakerfi samkvæmt gildandi tilskipun, né það sem nú er rætt um að koma á laggirnar, geti eitt og sér ráðið við kerfishrun og þegar bankaáhlaup blasir við.
Bent er á að innstæðutryggingasjóðir á Spáni og Ítalíu séu samkvæmt fréttum ófærir um að ráða við þær þrengingar sem þar steðji að. Full ríkisábyrgð og fjármögnun á þessum sjóðum væri við þær aðstæður algjörlega óraunhæf og myndi setja fjárhag ríkjanna í fullkomna óvissu á viðkvæmum tímum.
6. Óviðráðanlegar aðstæður o.fl.
Framkvæmdastjórnin gefur í skyn að íslensk stjórnvöld hafi borið sína ábyrgð á bankahruninu og bendir á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis því til vitnis. Því geti stjórnvöld ekki haldið því fram að hrunið hafi verið algjörlega ófyrirsjáanlegt og sprottið af utanaðkomandi aðstæðum.
Ísland mótmælir því að málið fyrir EFTA-dómstólnum snúist um bankaeftirlit og hvernig íslensk stjórnvöld hefðu átt að koma böndum á bankana. Þá snúist málið heldur ekki um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ómdeilt er að fullkomið bankahrun í október 2008 hafi verið meira en nokkur gat séð fyrir og er í því sambandi bent á ýmsar heimildir, s.s. skýrslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, niðurstöður matsfyrirtæka, ársreikninga bankanna sjálfra, o.s.frv.
7. Mismunun
Í greinargerð framkvæmdastjórnarinnar er tekið undir sjónarmið ESA um mismunun. Ekki er þó lagt mikið í að rökstyðja á hvaða hátt hefði verið hægt að haga málum með öðrum hætti en hér var gert eða hvernig íslensk stjórnvöld hefðu getað tryggt óhindraðan aðgang að Icesave-reikningunum við þær aðstæður sem sköpuðust haustið 2008 þegar áhlaup var hafið á reikningana, greiðslukerfi á milli Íslands og umheimsins var í uppnámi og enginn aðgangur að erlendum gjaldeyri.
Af hálfu stjórnvalda hefur því áður verið svarað til að mismunun eigi ekki við nema tekið verði undir að stjórnvöldum hafi borið skylda til að gera TIF kleift að standa við skuldbindingar sínar á grundvelli tilskipunarinnar. Þessari málsástæðu væri því jafnframt ofaukið, ef til þess kæmi. Ef meginmálsástæðu ESA og framkvæmdastjórnarinnar væri hins vegar hafnað og stjórnvöld yrðu ekki talin hafa verið brotleg við tilskipunina, yrði skylda stjórnvalda til að tryggja greiðslu innstæðutryggingar ekki byggð á jafnræðisreglunni einni saman.
Svar íslenskra stjórnvalda (á ensku)