Undirbúningur að upptöku á nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja
Velferðarráðuneytið undirbýr nú innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi sem hefur það meginmarkmið að verja sjúklinga fyrir háum lyfjakostnaði. Alþingi samþykkti 1. júní breytingar á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 og lyfjamál nr. 93/1994 sem kveða á um fyrirkomulag nýja greiðsluþátttökukerfisins.
Helstu breytingar sem lögin kveða á um eru:
- Nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja sem ver sjúklinga fyrir háum lyfjakostnaði þar sem sett er þak á hámarksgreiðslur.
- Allir sem nota lyf fá rafrænan aðgang að lyfjasögu sinni í Lyfjagagnagrunni landlæknis. Læknar fá sama aðgang að upplýsingum um lyfjanotkun sjúklinga sinna.
- Einfaldara fyrirkomulag á umsýslu S-merktra lyfja sem tryggir sama greiðslufyrirkomulag fyrir lyfin hvort sem einstaklingur sem þarfnast þeirra dvelur á sjúkrahúsi, í heimahúsi eða á hjúkrunarheimili.
Settur hefur verið á laggirnar stýrihópur til að fylgja málinu eftir þar sem sæti eiga fulltrúar frá Embætti landlæknis, Lyfjagreiðslunefnd, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingum Íslands og velferðarráðuneytinu. Verkáætlanir, innleiðing og framkvæmd einstakra þátta eru unnar af viðkomandi stofnunum og vinnuhópum á þeirra vegum. Nú þegar hafa meðfylgjandi drög að tveimur reglugerðum er tengjast málinu verið sendar út til umsagnar og er umsagnarfrestur til 1. ágúst næstkomandi.
- Drög að reglugerð um nýtt greiðsluþátttökukerfi
- Drög að reglugerð um endurgreiðslu á umtalsverðum kostnaði við læknishjálp, lyf og þjálfun