Hoppa yfir valmynd
21. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Áhrifavaldar á hamingju þjóðarinnar

Frá pallborðsumræðum um hamingjuna
Frá pallborðsumræðum um hamingjuna

Tekjur skýra minna en 1% af hamingju Íslendinga, atvinnuleysi hefur neikvæð tengsl við hamingju en gæði sambands við fjölskyldu og vini spáir best fyrir um hamingju fólks samkvæmt nýrri rannsókn Embættis landlæknis sem kynnt var í dag. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra var meðal þátttakenda í pallborðsumræðum um niðurstöðurnar.  

Rannsóknin fjallar um áhrif efnahagsþrenginga á hamingju Íslendinga og kynnti Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri hjá Embætti landlæknis niðurstöðurnar á málþingi sem embættið stóð fyrir í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Samkvæmt mælingum hefur Ísland á síðustu áratugum verið meðal hamingjusömustu þjóða í  heimi. Eftir hrun bankanna dró lítillega úr hamingju Íslendinga en á síðustu mánuðum hefur dregið úr henni enn frekar. Dóra Guðrún segir nærtækustu skýringuna á minni hamingju Íslendinga þá að verulega hafi fjölgað í hópi þeirra sem erfitt eigi með að ná endum saman.

Það sem vekur athygli er að tekjur skýra þó ekki hamingju fólks. Þeir sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman eru þó flestir í tekjulægsta hópnum. Aftur á móti eru um 14% fólks í tekjulægsta hópnum sem eiga auðvelt með að ná endum saman en um 25% þeirra sem hafa meira en milljón í fjölskyldutekjur á mánuði eiga erfitt með að ná endum saman.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði í pallborðsumræðum að lokinni kynningunni að það væri gott hvað rannsóknin sýni glöggt hvað öryggi, þar með talið efnahagslegt öryggi skipti miklu máli og að mögulega hefði óvissa um afkomu á hamingju fólks verið vanmetinn þáttur. Það væri hins vegar forvitnilegt að sjá að ekki séu bein tengsl á milli hamingju og tekna, þ.e. hvort tekjur fólks séu háaar eða lágar, svo lengi sem fólk nái endum saman.  

„Það er hins vegar mikilvægt að fólk upplifi réttlæti og að misskipting í samfélaginu sé ekki of mikil og við þurfum að huga að því. Á norrænum og evrópskum ráðherrafundum sem ég hef sótt eru allir sammála um að misréttið sem jókst gríðarlega árin fyrir hrun sé ein mesta ógnin við samfélög í heiminum í dag.“ 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta