Listasafn Sigurjóns Ólafssonar fært Listasafni Íslands að gjöf
Gjafabréf og samkomulag um gjöf á listaverkum Sigurjóns Ólafssonar og öðrum eignum safnsins til Listasafns Íslands hefur verið undirritað.
Viðræður hafa staðið yfir um skeið milli mennta- og menningarmálaráðuneytis, Listasafns Íslands og forsvarsmanna sjálfseignarstofnunar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar um gjöf á listaverkum Sigurjóns Ólafssonar og öðrum eignum safnsins til Listasafns Íslands, en hugmyndum þar að lútandi hafði verið komið á framfæri við mennta- og menningarmálaráðuneyti. Skipuð var viðræðunefnd ráðuneytisins, fulltrúa stjórnar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og Listasafns Íslands til að vinna að málinu og er niðurstaða málsins sú að í dag verður undirritað gjafabréf þar sem fram kemur að sjálfseignarstofnunin muni „... gefa Listasafni Íslands allar eignir Listasafns Sigurjóns Ólafssonar til varðveislu í minningu um Sigurjón Ólafsson og list hans og Ingu Birgittu Spur, eftirlifandi eiginkonu hans, sem haldið hefur list og minningu listamannsins á lofti frá því hann féll frá“, svo vísað sé til orðalags gjafabréfsins.
Sigurjón Ólafsson fæddist á Eyrarbakka árið 1908 og hlaut sína fyrstu tilsögn í myndlist hjá Ásgrími Jónssyni listmálara og síðar Einari Jónssyni myndhöggvara. Hann hóf nám í Konunglegu Akademíunni í Kaupmannahöfn 1928 og haustið 1930 hlaut hann gullverðlaun Akademíunnar fyrir styttu af Verkamanni, sem nú er í eigu Listasafns Íslands. Sigurjón hlaut skjótan frama erlendis og eftir námsdvöl í Rómaborg 1931-32, og lokapróf frá Akademíunni árið 1935, var hann talinn meðal efnilegustu myndhöggvara yngri kynslóðarinnar í Danmörku.
Verk Sigurjóns frá Danmerkurtímanum vekja enn forvitni og áhuga manna. Þegar Sigurjón sneri heim að loknu stríði varð hann meðal brautryðjenda abstraktlistar á Íslandi, en jafnframt var hann talinn einn helsti portrettlistamaður sinnar samtíðar. Á langri starfsævi var Sigurjóni falið að gera fjölda opinberra verka og í Reykjavík eru eftir hann á annan tug útilistaverka og veggskreytinga. Stærst verka hans er án efa lágmyndirnar á stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar, sem hann vann á árunum 1966-69, en þekktari eru ef til vill Öndvegissúlurnar við Höfða, styttan af séra Friðrik við Lækjargötu og Íslandsmerki á Hagatorgi.
Auk hinna hefðbundnu verkefna vann Sigurjón alltaf frjáls verk þar sem hugmyndaflug og tilraunir með efni og form fengu að ráða. Mörg þeirra eru nú í eigu safna og opinberra aðila. Sigurjón vann í afar fjölbreyttan efnivið; leir, gifs, tré, málma, stein og steinsteypu. Síðustu ár ævinnar notaði listamaðurinn oft tré eða rekavið í verk sín.
Sú gjöf sem hér er til umræðu felur í sér að Listasafni Íslands verði færð til eignar rúmlega hundrað og áttatíu höggmyndir og tvö hundruð og fjörutíu teikningar Sigurjóns Ólafssonar, verkfæri hans og vinnuskissur, afsteypur af listaverkum á sölulager, ljósmyndir af listaverkum, skráningargögn og heimildir (blaðaúrklippur, sýningarskrár og bréfasafn), auk lausamuna í eigu safnsins, m.a. flygill af Bösendorfer gerð. Þá er fasteignin að Laugarnestanga 70, þ.e. íbúð og safnbygging með öllum innréttingum og lóðarréttindum hluti gjafarinnar, en skv. Fasteignaskrá er fasteignamat hennar nú 57,1 m.kr. Samhliða þessum gjafagjörningi fær Listasafn Íslands jafnframt rúmlega eitt hundrað og sextíu höggmyndir listamannsins til viðbótar að láni ótímabundið, auk þess að njóta forkaupsréttar á þeim verkum. Það er því ljóst að hér er um að ræða afar verðmæta gjöf til Listasafns Íslands, bæði í listrænu og fjárhagslegu tilliti.
Gjöf sjálfseignarstofnunar Listasafns Sigurjóns Ólafssonar á listaverkum Sigurjóns Ólafssonar og öðrum eigum safnsins til Listasafns Íslands verður staðfest með undirritun gjafabréfs og samkomulags um ofangreind lán listaverka o.fl. í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi í dag, fimmtudag 21. júní kl. 16:00.
- Nánari upplýsingar um Listasafn Sigurjóns er að finna á vef safnsins og í samantektinni: þættir úr sögu LSÓ.