Ráðuneytisstjóri fundar með aðstoðarutanríkisráðherra Úkraínu
Hinn 20. júní átti Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, fund með Pavlo Klimkin, aðstoðarutanríkisráðherra Úkraínu, sem staddur er í heimsókn á Íslandi. Á fundinum var fjallað um tvíhliða samskipti ríkjanna og samstarf á sviði viðskipta, en íslensk stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á gerð loftferðasamnings milli Íslands og Úkraínu. Rætt var um gerð samnings um að greiða fyrir útgáfu vegabréfsáritana og um svokallaðan endurviðtökusamning. Þá var fjallað um alþjóðasamstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), en Úkraína verður formennskuríki ÖSE á árinu 2013.
Ráðuneytisstjóri kynnti helstu áherslumál í utanríkisstefnu Íslands, stefnu í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, norðurslóðasamstarf, þróun endurnýjanlegra orkugjafa, öryggis- og varnarmál, jafnréttismál og réttindi samkynhneigðra. Ráðuneytisstjóri og aðstoðarráðherrann ræddu mannréttindamál og hvatti ráðuneytisstjóri úkraínsk stjórnvöld til að vinna að úrbótum og framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum á því sviði. Vísaði hann meðal annars til máls fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, Júlíu Tímósjenkó, sem nú afplánar sjö ára dóm í fangelsi þar í landi.