Hoppa yfir valmynd
21. júní 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ríó+20: Opinber innkaup geta ýtt undir græna hagkerfið

Frá norræna viðburðinum á Ríó+20.
Frá norræna viðburðinum á Ríó+20.

Hið opinbera hefur úr töluverðum fjármunum að spila við innkaup. Ef grænar vörur og þjónusta verða fyrir valinu getur það orðið umtalsverður hvati fyrir grænna hagkerfi. Umhverfismerki eru meðal þeirra verkfæra sem hægt er að styðjast við í þessu ferli. Þetta var lykilboðskaður hliðarviðburðar sem Norræna ráðherranefndin efndi til í gær á Ríó+20 ráðstefnunni sem nú stendur yfir í Ríó de Janeiro.

Geta ríkisstjórnir ýtt undir græna hagkerfið í gegn um opinber innkaup? Geta neytendur stjórnað markaðinum með því að velja umhverfisvænni valkosti?

Þetta voru spurningar sem hópur ráðherra frá Norðurlöndunum og Suður-Ameríku glímdu við á hliðarviðburði á Ríó+20 ráðstefnunni í Ríó de Janeiro í gær. Það var Norræna ráðherranefndin sem stóð fyrir viðburðinum í samvinnu við Umhverfisstofnun Evrópu og brasilísku ríkisstjórnina.  Meðal þátttakenda var Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra Íslands.

Í umræðum ráðherranna kom fram sú skoðun að markmið um sjálfbæra þróun muni eingöngu nást ef tillit er tekið til allra þriggja stoða hennar, þ.e. umhverfisins, félagslegra þátt og efnahagslegra. Umhverfismerkingar og vistvæn innkaup opinberra aðila séu mikilvægar í því sambandi. Kom m.a. fram að opinber innkaup í OECD ríkjunum séu að jafnaði um 17% af vergri þjóðarframleiðslu.

Í máli sínu lagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra áherslu á samvinnu milli heimshluta í þessu sambandi og skilvirka stjórnsýslu í samstarfi við einkageirann til að skapa trúverðugan ramma um aðgerðir sem stuðla eiga að vistvænni lífsháttum. Hún benti á að leyfum fyrir norræna umhverfismerkið Svaninn hefði fjölgað um 700% í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að leggja sérstaka áherslu á vistvæn innkaup. Pólítískur vilji sé því mikilvægur.

Þá var rætt um sameiginlegt verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar, Umhverfisstofnunar Evrópu og Suður-Ameríkuríkjanna Argentínu, Brasilíu, Síle, Paragvæ og Úrúgvæ. Er því ætlað að kanna möguleika á að þróa umhverfisvottunarkerfi í síðarnefndu löndunum og ýta undir vistvæn innkaup hins opinbera en vonir standa til að þannig geti Norðurlöndin miðlað reynslu sinni af hvorutveggja til þessara ríkja í suðri. 

Frekari upplýsingar er að finna á vef Norðurlandaráðs þar sem einnig má finna myndband með viðtölum við nokkra þátttakendur á viðburðinum, þar á meðal Svandísi Svavarsdóttur. 

Vatn og hreinlætisaðstaða mikilvæg

Þá tók umhverfisráðherra þátt í pallborðsumræðum um vatn og hreinlætisaðstöðu, á hliðarviðburði sem haldinn var á þriðjudag í tengslum við ráðstefnuna. Í ræðu sinni benti hún á að um 780 milljónir manna hafa ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og um 2,6 milljarðar eru án grundvallar hreinlætisaðstöðu. Engu að síður hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna lýst því yfir að aðgangur að hvoru tveggja teljist til mannréttinda. Hún undirstrikaði einnig að vatn væri grundvöllur alls lífs á jörðinni sem maðurinn væri aðeins hluti af. Truflun á hringrás vistkerfa náttúrunnar kæmi þannig að lokum niður á manninum sjálfum.

Frá hliðarviðburði um vatn og hreinlætisaðstöðu.

Í ræðu sinni kom umhverfisráðherra einnig inn á mikilvægi þess að tala máli þeirra sem ekki geta það sjálfir, s.s. náttúrunnar og kynslóða framtíðarinnar.  Sagði hún það grundvallaratriði svo markmiðum um sjálfbæra þróun verði náð.

Loks lagði umhverfisráðherra áherslu á að aðgangur að hreinu vatni væri mikilvægur fyrir jafnréttisbaráttu þar sem víða væri öflun vatns á ábyrgð kvenna. Þannig er áætlað að konur verji nærri þrefalt meiri tíma í vatnsöflun daglega en karlar. Sá tími sem fer í vatnsöflun kemur víða í veg fyrir að stúlkur njóti menntunar og konur hafi tækifæri til að afla sér tekna með annarri vinnu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta