Rafbíll iðnaðarráðuneytisins heillar fyrirtæki og stofnanir
Iðnaðarráðuneytið er hamingjusamur eigandi að rafmagnsbíl af gerðinni Mitsubishi MiEV, eða Jarðarberinu eins og hann er jafnan kallaður. Þessar vikurnar geta áhugasamar stofnanir og fyrirtæki fengið Jarðarberið í dagslán til að kynnast kostum rafmagnsbíla og er verkefnið hluti af átakinu Orkuskipti í samgöngum. Þess má jafnan geta að í vikunni samþykkti Alþingi ný lög sem kveða á um að virðisaukaskattur af raf- og vetnisbílum sem kosta innan við sex milljónir falli niður.
Iðnaðarráðuneytið er þessa mánuðina að lána út rafbíl til fyrirtækja og stofnanna. Bíllinn vekur mikla lukku og er fólk stórhrifið af þessum vistvæna farkosti framtíðarinnar.
Átakið er hluti af verkefninu Orkuskipti í samgögnum sem miðar m.a.að því að a.m.k.10% orkugjafa í samgöngum og sjávarútvegi á Íslandi verði af endurnýjanlegum uppruna árið 2020.
Um er að ræða rafbíl sem ráðuneytið keypti árið 2010 en undanfarið hefur hann verið staðsettur á Akureyri þar sem hann hefur verið notaður til rannsókna af Orkusetri í samvinnu við Orkustofnun. Rafbíllinn er fjögurra manna og hefur um 60-70 km drægni á einni hleðslu og hentar því sérstaklega til innanbæjaraksturs.
Ágúst Mogensen hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa var mjög ánægður með prufudaginn. Hann segir bíllinn vera einkar þægilegan í akstri og hann hafi slegið í gegn hjá öllum vinnufélögunum.
Þann 19.júní s.l.samþykkti Alþingi ný lög sem kveða á um að virðisaukaskattur af raf- og vetnisbílum sem kosta innan við sex milljónir falli niður, svo að það má væntanlega búast við aukningu á innflutningi af rafbílum til landsins.
Fyrirtæki og stofnanir sem eru áhugasöm um að fá að prófa rafbílinn í dagstund eru hvött til að senda okkur tölvupóst á netfangið [email protected]