Samningur gerður við Listaháskóla Íslands
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, skrifuðu undir þjónustusamning um kennslu og rannsóknir við skólann til næstu fimm ára.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, hafa skrifað undir þjónustusamning um kennslu og rannsóknir við skólann til næstu fimm ára.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur undanfarna mánuði unnið að gerð nýrra samninga fyrir háskólastigið í heild sinni, í nánu samstarfi við háskólana. Samningurinn við Listaháskólann er sá þriðji í röðinni en þegar hefur verið skrifað undir samning við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst. Þá er röðin komin að opinberu háskólunum og stefnt er að því að ljúka samningagerð við alla háskólana á fyrri helmingi árs 2012.
Sú nýbreytni er nú höfð að leiðarljósi við gerð þjónustusamninga fyrir háskólastigið að hverjum samningi fylgir viðauki, þar sem starfsemi skólanna er skilgreind nánar. Viðaukinn er afrakstur náins samstarfs ráðuneytis og skólanna. Skilgreindir hafa verið ákveðnir samstarfsferlar á milli viðkomandi skóla og ráðuneytis og verður viðaukinn til endurskoðunar ár hvert.
Markmiðið með hinu nýja samningaferli er að auka gagnsæi og eftirlit með rekstri skólanna ásamt því að regluleg endurskoðun viðauka samningsins gerir skólanum og ráðuneyti kleift að bregðast jafnóðum við þjóðfélagsbreytingum og sníða rekstur skólanna og háskólastigins í landinu að þörfum þjóðfélagsins á hverjum tíma.