Sólin er komin í hástöðu ... og hin efnahagslega sól hækkar jafnt og örugglega!
Það er mikilvægt að vekja athygli á því sem vel er gert og horfir til framfara og alla virka daga frá 23. janúar hefur iðnaðarráðuneytið birt eina jákvæða frétt á dag undir heitinu Hækkandi sól .
Og sannarlega hefur hin efnahagslega sól verið að hækka jafnt og þétt. Tölur Hagstofu Íslands um landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi 2012 staðfesta að efnahagsbatinn er stöðugur og heldur áfram. Landsframleiðsla á föstu verðlagi jókst um 2,4% frá 4. ársfjórðungi 2011 til 1. fjórðungs 2012 og hagvöxtur hefur verið jákvæður á 5 síðustu ársfjórðungum.
Iðnaðarráðuneytið fer með málefni er varða nýsköpun, orkumál og ferðamál og í þeim geirum eru alla daga að vinnast sigrar - stórir og smáir – eins og glögglega hefur komið fram í jákvæðu fréttunum.
Það á að auka okkur bjartsýni og trú að fylgjast með góðum árangri við markaðssetningu á hrossaþara,Íslandsmeti í hverjum mánuði í komu erlendra ferðamanna, þróun á steypu sem ku marka tímamót á alþjóðavettvangi, grænkun atvinnulífsins og ReMake Electric sem hefur hannað margverðlaunað orkustjórnunarkerfi! Það eru jákvæðar sögur að eiga sér stað alla daga út um allt land.