Norðurslóðasamstarf Íslands og Noregs á góðum rekspöl
Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs undirrituðu viljayfirlýsingu í september 2011 um samstarf á sviði norðurslóðafræða m.a. stofnun gestaprófessorsstöðu í norðurslóðafræðum, styrki til nemendaskipta og styrktarsjóð fyrir vísindasamstarf um norðurslóðir. Háskólinn á Akureyri hefur nú þegar auglýst gestaprófessorsstöðu í norðurslóðafræðum sem kennd verður við norska heimskautafræðinginn Fridtjof Nansen og mun gestaprófessorinn hefja störf næsta haust.
Verið er að leggja lokahönd á úthlutun styrkja til nemendaskipta fyrir haustönnina og er stór hluti þeirra sem nýta sér þessa styrki nemendur í doktors eða meistaranámi. Stefnt er að því auglýsa styrki til nemendaskipta aftur í haust ásamt styrkjum til samstarfs í norðurslóðafræðum. Nánari upplýsingar um gestaprófessorsstöðuna er að finna á heimsíðu Háskólans á Akureyri og upplýsingar um styrki til nemendaskipta á heimsíðu Alþjóðaskrifstofu um nám erlendis.