Ísland hvetur til þess að mannréttindabrotum í Sýrlandi verði vísað til Alþjóðlega sakamáladómstólsins
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna fjallaði í dag um sérstaka skýrslu rannsóknarnefndar á vegum ráðsins um meint mannréttindabrot í Sýrlandi, þ.m.t. fjöldamorðin í El-Houleh. Ísland tók þátt í yfirlýsingu fjölda ríkja þar sem þungum áhyggjum og óhug var lýst vegna niðurstaðna nefndarinnar og að mögulega hafi verið framin í Sýrlandi umfangsmikil og kerfisbundin mannréttindabrot sem kunni að reynast glæpir gegn mannkyni. Áréttað var að refsileysi fyrir slíka glæpi megi ekki líðast. Jafnframt lýstu ríkin stuðningi við ákall Mannréttindafulltrúa SÞ og sérstakra erindreka mannréttindaráðsins til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að vísa beri þessum brotum til Alþjóðlega sakamáladómstólsins.
Svíþjóð, fyrir hönd Norðurlandanna, flutti ávarp við sama tækifæri þar sem sjónum var sérstaklega beint að mannréttindabrotum og ofbeldi gegn börnum er sérstaklega harmað. Í ávarpinu eru sýrlensk stjórnvöld hvött til að láta af árásum á almenna borgara og að virða alþjóðleg mannréttinda- og mannúðarlög, og að starfa með mannréttindaráðinu og sérstökum erindreka SÞ, Kofi Annan. Loks tóku íslensk stjórnvöld undir yfirlýsingu ESB sem meðal annars fjallaði um ástandið í Sýrlandi.