Réttur fósturbarna til menntunar styrktur með nýrri reglugerð
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út reglugerð nr. 547/2012 um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum. Reglugerðin er ný reglugerð við grunnskólalögin í samræmi við breytingar á lögum sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2008. Með setningu grunnskólalaga nr. 91/2008 voru tekin af tvímæli um rétt fósturbarna til skólagöngu í lögheimilissveitarfélagi fósturforeldra og í reglugerðinni er það ákvæðið nánar útfært.
Starfshópur með fulltrúum frá ráðuneytinu, innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Barnaverndarstofu vann að samningu reglugerðarinnar. Hún tekur af öll tvímæli um hvaða sveitarfélag skuli bera kostnað vegna skólagöngu fósturbarna, skýrt er kveðið á um útfærsluna og einnig er þar að finna ákvæði um könnun barnaverndar á skólamálum og lýst framkvæmd hennar. Í reglugerðinni er gert ráð fyrir sérstakri úrskurðarnefnd á vegum ráðuneytisins sem hægt er að vísa til ágreiningsefnum milli sveitarfélaga um kostnað og fleiri þætti samkvæmt reglugerðinni.
Ráðuneytið telur að útgáfa reglugerðar þessarar sé til mikilla bóta til að stuðla að því að fósturbörn njóti fullnægjandi skólavistar á meðan þau eru í tímabundnu fóstri.
Reglugerð nr. 547/2012