Hoppa yfir valmynd
29. júní 2012 Forsætisráðuneytið

Unnið að nýrri upplýsinga- og samskiptastefnu Stjórnarráðsins

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að skipa vinnuhóp sem fær það verkefni að semja drög að upplýsinga- og samskiptastefnu Stjórnarráðsins og að drög að slíkri stefnu verði lögð fyrir ríkisstjórn til umfjöllunar þegar hún liggur fyrir.

Gert er ráð fyrir að fulltrúar forsætisráðuneytis, innanríkisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis, fulltrúi úr hópi upplýsingafulltrúa Stjórnarráðsins, sérfræðingur á sviði upplýsingamála, lögfræðingur, fulltrúi vefstjóra og fulltrúi skjalastjóra taki sæti í vinnuhópnum.

Undanfarna mánuði hefur vinnuhópur skipaður fulltrúum allra ráðuneyta fjallað um stefnu Stjórnarráðsins um notkun samfélagsmiðla en hún yrði hluti af þeirri upplýsinga- og samskiptastefnu sem nú er ákveðið að móta fyrir Stjórnarráðið í heild. Hópurinn bendir á að slík stefna liggi víða fyrir hjá hinu opinbera í nágrannalöndunum.

Vinnuhópurinn telur að opin stjórnsýsla og aðgengileg almenningi sé ein af meginstoðum góðrar stjórnsýslu. Bent er á að Íslendingar teljist með netvæddari þjóðum heims, en árið 2011 tengdust tæp 95% landsmanna netinu á einn eða annan hátt. Þá færist í aukana að að fólk leiti sér sjálft upplýsinga og efnis á netinu og geri kröfur um að slíkt sé auðfundið og aðgengilegt.

Í skýrslu vinnuhópsins kemur fram að með notkun samfélagsmiðla til upplýsingagjafar og samskipta megi ná til stærri hóps en áður. Þá hafa rannsóknir sýnt að þeir sem eiga í rafrænum samskiptum við opinbera stjórnsýslu séu mun líklegri en aðrir til að hafa jákvætt viðhorf gagnvart henni þar sem hún er í senn aðgengilegri og opnari.

Í skýrslunni eru talin sóknarfæri í notkun upplýsingatækninnar, netsins og samfélagsmiðla til að gera stjórnsýsluna opnari og gensærri og að þau geti leitt til aukins trausts almennings á henni.

Vinnuhópurinn lagði til að myndaður yrði hópur sem falið yrði að leggja drög að upplýsinga- og samskiptastefnu stjórnarráðsins. Ríkisstjórnin hefur nú  samþykkt að skipa slíkan hóp.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta