Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2012 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á lögum um ríkisborgararétt

Alþingi samþykkti í lok maí frumvarp innanríkisráðherra um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952 og öðluðust þau þegar gildi sem lög nr. 40/2012. Breytingarnar snúa fyrst og fremst að hagræðingu vegna breyttra reglna um fjárhæðir sekta og leiðréttingum sem taldar eru nauðsynlegar vegna breytinga sem orðið hafa á lögum um útlendinga.

Ein breytingin lýtur að því að endurvakið er tímabundið ákvæði sem var til bráðabirgða í lögunum frá 1. júlí 2003 til 1. júlí 2007, um heimild til að endurveita íslenskan ríkisborgararétt. Þegar ákveðið var með lögum nr. 9/2003 að íslenskum ríkisborgurum væri heimilað að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir öðlist ríkisborgararétt í öðru ríki var jafnframt sett ákvæði til bráðabirgða sem var í gildi í fjögur ár þess efnis að sá sem misst hefur íslenskt ríkisfang skv. 7. gr. laga nr. 100/1952, sem felld var úr gildi með lögum nr. 9/2003, hefði heimild til þess að öðlast íslenska ríkisfangið að nýju. Þurfti að uppfylla tiltekin skilyrði og sækja um það innan fjögurra ára frá gildistöku ákvæðisins.

Reynslan hefur sýnt að margir sem hefðu getað nýtt sér bráðabirgðaákvæðið vissu ekki af þeim möguleika.  Er nú hægt að óska þess við ráðuneytið að öðlast ríkisfang að nýju, enda uppfylli umsækjandi ákveðin skilyrði og leggi fram fullnægjandi gögn að mati ráðuneytisins fyrir 1. júlí 2016.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta