Landslagssamningur Evrópu undirritaður sl. föstudag
Ísland hefur undirritað Landslagssamning Evrópu. Það var Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í Frakklandi, sem undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd í París sl. föstudag.
Markmið Landslagssamnings Evrópu er að stuðla að verndun, stýringu og skipulagi landslags ásamt því að koma á fót evrópsku samstarfi um landslag. Samningurinn inniheldur m.a. almenn ákvæði um fjögur meginatriði:
- Að veita landslagi ákveðinn sess í lögum og viðurkenna mikilvægi þess í umhverfi landsins.
- Að móta og framfylgja stefnu um landslag sem miðar að verndun, nýtingu og skipulagi þess.
- Að tryggja aðkomu almennings o.fl. að mótun stefnu um landslag.
- Að huga að landslagi við aðra stefnumótun, svo sem í stefnu um byggðaþróun, menningarmál, landbúnað, félagsmál og efnahagsmál.
Með þátttöku í Landslagssamningi Evrópu er staðfestur vilji stjórnvalda til að stuðla að landslagsvernd og að taka ákveðin skref í þá átt í samræmi við leiðbeiningar samningsins. Þá getur Ísland nýtt sér vinnu sem þegar hefur farið fram í tengslum við samninginn í öðrum ríkum Evrópu. Að auki mun Ísland leggja fram þekkingu og reynslu sem orðið hefur til hérlendis á sviði landslagsgreiningar og –verndar.
Fullgilding samningsins er meðal markmiða samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 2009.