Skipun ráðgjafarhóps um lagningu sæstrengs
Iðnaðarráðherra hefur skipað ráðgjafarhóp til að kanna nánar þann möguleika að tengja íslenska raforkukerfið við raforkukerfi meginlands Evrópu með lagningu sæstrengs. Slík framkvæmd hefur um nokkurt skeið verið talin tæknilega möguleg en fyrst nú eru komnar fram jákvæðar vísbendingar um hagkvæmni verkefnisins. Ýmsar forsendur þarf að staðfesta áður en unnt er að fullyrða endanlega um þjóðhagslega hagkvæmni verkefnisins og ljóst er að breið samfélagsleg sátt er nauðsynleg eigi verkefnið að verða að veruleika.
Meðal þeirrar greiningar og rannsóknarvinnu sem leggja þarf út í á næstunni, vegna mögulegrar lagningar sæstrengs, er greining á samfélags- og þjóðhagslegum áhrifum, greining á tæknilegum atriðum og greining á lagaumhverfi og milliríkjasamningum. Ráðgjafarhópurinn skal standa fyrir faglegri og upplýstri umræðu um málefni sæstrengs og er honum falið að skila áfangaskýrslu til iðnaðarráðherra fyrir lok árs 2012 um stöðu málsins.
Ráðgjafarhópurinn er skipaður eftirfarandi aðilum:
Gunnar Tryggvason, formaður, skipaður af iðnaðarráðherra,
Vilhjálmur Þorsteinsson, tilnefndur af þingflokki Samfylkingarinnar,
Álfheiður Ingadóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs,
Ólöf Nordal, tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins,
Sigurður Ingi Jóhannsson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins,
Baldvin Björgvinsson, tilnefndur af þingflokki Hreyfingarinnar,
Nils Gústavsson, tilnefndur af Landsneti,
Ragna Árnadóttir, tilnefnd af Landsvirkjun,
Pétur Reimarsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins,
Þuríður Einarsdóttir, tilnefnd af BSRB,
Arnbjörg Sveinsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
Ásdís Kristinsdóttir, tilnefnd af Samorku,
Signý Jóhannesdóttir, tilnefnd af ASÍ,
Valdimar K. Jónsson, tilnefndur af Neytendasamtökunum,
Árni Finnsson, tilnefndur af Náttúruverndarsamtökum Íslands.
Formaður ráðgjafarhópsins, Gunnar Tryggvason verkfræðingur, er aðstoðarmaður fjármálaráðherra og starfandi iðnaðarráðherra.