Tillögur nefndar um málefni útlendinga utan EES
Starfshópur sem fjallað hefur um málefni útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) leggur til að sett verði heildarlög sem taki til dvalar- og atvinnuleyfa útlendinga, réttindi fylgi einstaklingi en ekki dvalarleyfi og að almennt gildi að rétti til dvalar fylgi réttur til atvinnu. Þá leggur hópurinn til að horfið verði frá því að refsa hælisleitendum fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum og að komið verði á laggirnar sjálfstæðri úrskurðarnefnd í málefnum hælisleitenda, sem hugsanlega nái til allra kærumála á grundvelli útlendingalaga.
Starfshópurinn skilaði nýlega skýrslu með tillögum sínum og eru þær settar fram í ellefu liðum.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skipaði starfshópinn í júlí 2011 og var verkefni hans að fjalla um málefni útlendinga utan Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðisins sem leita eftir dvöl á Íslandi. Skyldi starfshópurinn móta heildstæða stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum útlendinga og hafa að leiðarljósi að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda á því sviði. Var hópnum meðal annars falið að taka sérstaklega til skoðunar þann tíma sem afgreiðsla mála tekur og áhrifa málsmeðferðartímans á umsækjendur um hæli og dvalarleyfi.
Í starfshópnum áttu sæti Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Haukur Ólafsson, deildarstjóri mannréttinda og jafnréttis á skrifstofu alþjóða- og öryggissviðs utanríkisráðuneytisins, Ingvar Sverrisson, sjálfstætt starfandi ráðgjafi, Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu velferðarþjónustu velferðarráðuneytisins, María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur á skrifstofu mannréttinda og sveitarstjórnarmála hjá innanríkisráðuneytinu og Rósa Dögg Flosadóttir, lögfræðingur á skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga hjá innanríkisráðuneytinu.