Uppfærsla og breytingar á neysluviðmiðum fyrir íslensk heimili
Neysluviðmið sem velferðarráðuneytið kynnti fyrir rúmu ári hafa nú verið endurskoðuð og uppfærð í samræmi við nýjustu rannsóknir Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna. Viðmiðin verða framvegis uppfærð árlega.
Neysluviðmið fyrir íslensk heimili voru kynnt í fyrsta sinn í febrúar 2011 og voru byggð á skýrslu hóps sérfræðinga sem unnið hafði að þessu verkefni frá miðju ári 2010. Skýrsla hópsins var lögð fram til almennrar kynningar og umræðu og birt á vef ráðuneytisins ásamt reiknivél þar sem einstaklingar gátu mátað eigin útgjöld að viðmiðunum. Endurskoðun viðmiðanna byggist á athugasemdum sem ráðuneytinu hafa borist frá því að þau voru kynnt fyrir rúmu ári.
Tvö viðmið í stað þriggja áður
Upphaflega voru kynnt þrenns konar viðmið um neyslu fólks en nú hefur verið ákveðið að viðmiðin sem ráðuneytið gefur út verði tvö, þ.e. annars vegar grunnviðmið sem gefa vísbendingar um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér og dæmigerð viðmið sem ætlað er að endurspegla og gefa sem heildstæðasta mynd af dæmigerðum útgjöldum íslenskra heimila. Í dæmigerðu viðmiðunum er miðað við miðgildi útgjalda þannig að helmingur heimilanna er með lægri útgjöld og hinn helmingurinn með hærri útgjöld. Hér er því hvorki um lágmarks- né lúxusviðmið að ræða.
Skammtímaviðmiðin sem kynnt voru í fyrra hafa verið felld niður og byggist sú ákvörðun á því að nú hefur Umboðsmaður skuldara gefið út framfærsluviðmið í samræmi við lög um embættið sem notuð eru til að meta fjárhagsstöðu umsækjenda og eru í eðli sínu skammtímaviðmið.
Húsnæðiskostnaður undanskilinn
Velferðarráðuneytinu hafa borist margar athugasemdir frá því að neysluviðmiðin voru fyrst kynnt og hafa þær langflestar snúist um áætlaðan kostnað vegna húsnæðis. Sérfræðingarnir sem unnu viðmiðin gerðu grein fyrir því við kynningu þeirra að þar sem húsnæðiskostnaður fólks er afar breytilegur gæti það orkað tvímælis að hafa hann sem útgjaldalið í viðmiðunum. Jafnframt var bent á að í sambærilegum neysluviðmiðum annarra Norðurlandaþjóða væri húsnæðiskostnaðurinn alltaf undanskilinn af þessum ástæðum. Því var ákveðið að taka húsnæðiskostnað út úr dæmigerðu viðmiðunum og þar með þá útgjaldaliði sem fela í sér húsaleigu eða reiknaða húsaleigu, viðhaldskostnað húsnæðis, rafmagn og hita. Líkt og áður er hvorki húsnæðiskostnaður né rekstur bíls inni í grunnviðmiðinu. Á vef Þjóðskrár Íslands, má finna annars vegar fasteignamat og hins vegar viðmiðunarleiguverð samkvæmt upplýsingum úr skráðum leigusamningum. Þá má reikna mánaðarlega greiðslubyrði lána á vef Íbúðalánasjóðs.
Tilgangurinn með smíði neysluviðmiða var að veita heimilum í landinu aðgang að viðmiðum sem þau geta haft til hliðsjónar þegar þau áætla eigin útgjöld, auk þess sem slík viðmið geta nýst við fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga og verið grunnur að ákvörðunum um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Viðmiðin eru hvorki endanlegur mælikvarði á hvað sé hæfileg neysla fjölskyldna né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfærslu.
Raunútgjöld hafa dregist saman
Grunnviðmið eiga að gefa vísbendingu um hver geti verið lágmarksútgjöld í ákveðnum útgjaldaflokkum. Byggt er á útgjaldadreifingu samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar og grunnviðmið annarra Norðurlandaþjóða höfð til hliðsjónar. Ekki er reiknaður kostnaður vegna húsnæðis og bifreiðar, en útgjöld vegna notkunar almenningssamgangna reiknuð á hvern fjölskyldumeðlim. Samkvæmt þessu eru uppfærð grunnviðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu, að undanskildum húsnæðiskostnaði, árið 2012 92.146 kr. Árið 2011 nam upphæðin 92.629 kr. Fyrir hjón með tvö börn eru grunnviðmiðin 260.777 kr. en voru árið 2011 264.246 kr.
Eftir uppfærslu viðmiðanna árið 2012 nema dæmigerð viðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu að undanskildum húsnæðiskostnaði 223.031 kr. á mánuði en voru árið 2011 225.539 kr. Útgjöld hjóna sem búa á höfuðborgarsvæðinu með tvö börn eru samkvæmt dæmigerðu viðmiðunum árið 2012 466.377 kr. en voru 474.191 kr. árið 2011. Hafa ber í huga að viðmiðin miðast við raunútgjöld og sýna að útgjöld heimila hafa dregist saman í þeim útgjaldaflokkum sem hér um ræðir.