Ákvörðun ESA vegna sölu á byggingum til Verne
Ákvörðun ESA vegna sölu á byggingum til Verne Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnti í dag að hún hefði lokið formlegri rannsókn á málefnum Verne, sem rekur gagnaver á gamla varnarsvæðinu í Keflavík.
Með ákvörðuninni kemst ESA að þeirri niðurstöðu að Verne hafi hlotið ríkisaðstoð í gegnum kaup á byggingum á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli og með undanþágu frá fasteigna- og gatnagerðargjöldum í Reykjanesbæ.
Forsaga málsins er sú að fyrirhugað var að gera fjárfestingarsamning á milli íslenska ríkisins og Verne, en samhliða gerði fyrirtækið samning um kaup á eignum, lóðarleigusamning, samning um gagnaflutning og raforkusamning. Síðar var horfið frá gerð fjárfestingarsamnings á grundvelli sérstakra heimildarlaga og tilkynning um hann til ESA dregin til baka. Í kjölfarið var gerður fjárfestingarsamningur við Verne á grundvelli laga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, eftir að ESA hafði formlega samþykkt þau lög sem lögmætt ríkisaðstoðarkerfi.
Með ákvörðun ESA eru ekki gerðar athugasemdir við þann fjárfestingarsamning sem gerður var á grundvelli fyrrnefndra laga enda sneri rannsókn ESA ekki að honum. Stendur hann því óbreyttur. Í ákvörðun ESA er auk þess staðfest að engin ríkisaðstoð hafi falist í raforkusamningi Verne við Landsvirkjun, lóðaleigusamningi fyrirtækisins við íslenska ríkið eða samningi milli Farice og Verne.
Að mati ESA var söluvirði bygginga þeirra sem Verne keypti af íslenska ríkinu lægra en það sem ESA telur að hafi verið markaðsvirði þeirra. Muninn þar á þurfi að endurheimta, sem og fasteignagjöld og gatnagerðargjöld sem Reykjanesbær veitti fyrirtækinu undanþágu frá að greiða. Íslensk stjórnvöld sýndu ESA fram á það við meðferð málsins með hvaða hætti byggingarnar voru seldar, en það var gert í gegnum opið söluferli Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og voru byggingarnar seldar hæstbjóðanda, sem var Verne.
Ekki liggur fyrir hvort Verne og/eða íslenska ríkið láti reyna á mat ESA fyrir EFTA-dómstólnum.
Fréttatilkynning ESA.