Samningum lokið við alla háskóla í landinu
Samningar við Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Hólaskóla undirritaðir
Samningar við Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Hólaskóla undirritaðir
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Hólaskóla - Háskólans á Hólum, hafa skrifað undir nýja samninga um kennslu og rannsóknir við skólana til næstu fimm ára. Með undirritun þeirra hafa samningar af þessu tagi verið gerðir við alla háskóla í landinu.
Þessir nýju samningar voru undirbúnir í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í nánu samstarfi við háskólana. Sú nýbreytni var höfð að leiðarljósi við gerð þeirra að hverjum samningi fylgir viðauki, þar sem starfsemi skólanna er skilgreind nánar. Ráðuneytið og skólarnir höfðu samráð um skilgreiningu tiltekinna samstarfsferla á milli viðkomandi skóla og ráðuneytis og verður viðaukinn til endurskoðunar ár hvert.
Markmiðið með hinu nýju samningum og því samráðsferli, sem í þeim felast, er m.a að auka gagnsæi og eftirlit með rekstri skólanna ásamt því að regluleg endurskoðun viðauka hvers samnings gerir skólanum og ráðuneyti kleift að
bregðast jafnóðum við þjóðfélagsbreytingum og sníða rekstur skólanna og háskólastigins í landinu að þörfum þjóðfélagsins á hverjum tíma.