Sýrlensk stjórnvöld fordæmd
Á fundi „Vina Sýrlands“ sem haldinn var í dag í París fordæmdu Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin sýrlensk stjórnvöld fyrir að skeyta lítt um líf og limi óbreyttra borgara í þeirri öldu ofbeldis og manndrápa sem einkennt hafa síðustu mánuði í Sýrlandi með þeim afleiðingum að meira en sextán þúsund manns hafa týnt lífi. Í sameiginlegri ræðu á fundinum lögðu Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin áherslu á að draga verði til ábyrgðar alla þá sem gerst hafa sekir um alvarlega glæpi og telja ríkin átta ekki að slíkir aðilar geti tekið sæti í nýrri bráðabirgðastjórn með þátttöku bæði stjórnar og stjórnarandstöðu sem lögð var áhersla á að yrði sett á laggirnar á fundi Kontakt-hópsins svonefnda í Genf 30. júní sl.
Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands, flutti sameiginlega ræðu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á fundinum í París í dag en Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd. Um eitt hundrað ríki sendu fulltrúa til fundarins í París en áður komu „Vinir Sýrlands“ saman í Istanbul í apríl-byrjun og í Túnis í febrúar sl. Á vettvangi Mannréttindaráðsins í Genf var jafnframt í dag samþykkt harðorð ályktun um stöðuna í Sýrlandi og var Ísland meðflutningsaðili að ályktuninni.