Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrsla Íslands um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi tekin fyrir í Genf

Fyrirtaka á fimmtu skýrslu um framkvæmd Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi fór fram hjá mannréttindanefnd SÞ í Genf í dag og í gær. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri í innanríkisráðuneytinu, fór fyrir sendinefnd Íslands en í henni sátu einnig þau María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, og Veturliði Þór Stefánsson, sendiráðsritari hjá Fastanefnd Íslands í Genf.

Á fundinum kynnti íslenska sendinefndin efni skýrslunnar, nýmæli í íslenskri réttarframkvæmd sem fram hefur komið eftir að skýrslunni var skilað inn og svaraði spurningum nefndarinnar.

Meðal umfjöllunaratriða á fundinum voru ný lög um réttindi fólks með kynáttunarvanda,  jafnrétti kynjanna og þá sérstaklega launamunur kynjanna, aðgerðir gegn kynbundu ofbeldi og kynferðislegu ofbeldi gegn börnum og aðgerðir stjórnvalda gegn mansali. Sérstaklega var fjallað um mikla áherslu stjórnvalda á mannréttindamál, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um lögfestingu mannréttindasáttmála og vinnu við landsáætlun í mannréttindamálum en nefndin var áhugsöm um þessa þætti og hvatti stjórnvöld til þess að vinna að framgangi þessara mála.

Nefndin hvatti Ísland til þess að lögfesta sáttmálann og að mikilvægt væri að stjórnvöld huguðu að því að endurskoða fyrirvara sína við þrjú ákvæði sáttmálans. 

Réttindamál útlendinga voru ofarlega á baugi og kynnti sendinefndin nýlega útkomna skýrslu um þau mál. Álit mannréttindanefndarinnar í kvótamálinu kom til umræðu en eins og kunnugt er hefur nefndin lokið málinu.

Nefndin taldi almennt að mikilvægt væri að huga að fræðslu og menntun borgara og fagstétta um ákvæði laga og ekki síst að stjórnvöld yrðu að huga að því að tryggja framkvæmd þeirra í reynd.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta