Ákvarðanir ESA á sviði ríkisaðstoðar
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnti í dag um þrjár ákvarðanir á sviði ríkisaðstoðar.
Arion banki og Landsbankinn
Í fyrsta lagi er um að ræða tvær ákvarðanir um að samþykkja ríkisaðstoð sem veitt var í tengslum við endurreisn Arion banka og Landsbankans. Áður hafði stofnunin tekið sambærilega ákvörðun vegna Íslandsbanka þann 27. júní sl. Með ákvörðunum frá í dag er staðfest að stofnun og endurskipulagning bankanna tveggja samrýmdist reglum EES-samningsins, að því leyti sem þær ráðstafanir fólu í sér ríkisaðstoð.
Ráðuneytið fagnar þessum ákvörðunum, sem staðfesta að ráðstafanir stjórnvalda til að koma á fót stöðugara bankakerfi á Íslandi eftir efnahagshrunið og tryggja um leið skilyrði fyrir virkri samkeppni á bankamarkaði, hafi verið í samræmi við reglur EES um ríkisaðstoð.
Slit peningamarkaðssjóða
Í öðru lagi er um að ræða ákvörðun er varðar kvörtun sem barst ESA í tengslum við slit peningamarkaðssjóða sem tengdust nýju viðskiptabönkunum þremur. Fljótlega í kjölfar falls gömlu bankanna var umræddum sjóðum slitið með aðkomu nýju viðskiptabankanna. Bankarnir keyptu eignir úr sjóðunum á grundvelli óháðs verðmats í október 2008, í því skyni að unnt væri að slíta sjóðunum og greiða sjóðsfélögum inn á innlánsreikninga í samræmi við hlutfallslega eign þeirra eftir því sem eignir sjóðsins fengjust greiddar.
Líkt og fram kemur í fréttatilkynningu ESA vegna málsins telur stofnunin að kaup bankanna á eignum úr sjóðunum hafi verið fjármögnuð af ríkisfjármunum, en þá ályktun dregur stofnunin af þeirri staðreynd að bankarnir voru á þessum tíma að fullu í eigu ríkisins og bráðabirgðastjórnir þeirra voru að miklu leyti skipaðar íslenskum embættismönnum. Þannig hafi kaupin haft áhrif á fjárhag ríkisins, enda þótt engir fjármunir hafi runnið úr ríkissjóði vegna þessara ráðstafana bankanna. ESA telur að einkafjárfestir, þ.e. banki án nokkurra tengsla við stjórnvöld, hefði ekki ráðist í þessi kaup í því óvissuástandi sem ríkti á fjármálamarkaði á þessum tíma. Stofnunin telur að þessi meinta aðkoma ríkisins að slitum peningamarkaðssjóðana hafi verið réttlætanleg og í samræmi við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð. Um hafi verið að ræða nauðsynlegar ráðstafanir til að endurbyggja traust á fjármálastofnunum og ná tökum á efnahagsástandinu á Íslandi. Því hefði verið rétt af stjórnvöldum að koma að uppgjöri hlutaðeigandi sjóða.
Fjármálaráðuneytið telur jákvætt að rannsókn ESA á þessu máli sé nú lokið án nokkurra eftirmála af hálfu ESA. Hins vegar fellst fjármálaráðuneytið ekki á þá niðurstöðu að kaup bankanna séu talin rekjanleg til íslenska ríkisins. Gögn málsins, þ.á m. fundargerðir stjórna bankanna, umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis um málið og samskipti stjórnvalda við bankana þrjá á þessum tíma sýna að ákvarðanir bankanna um að kaupa eignir úr sjóðunum til að flýta fyrir slitum þeirra voru í öllum tilfellum teknar í því skyni að draga úr óvissu hjá viðskiptavinum þessara fjármálastofnana. Því reyndist ekki þörf á að stjórnvöld kæmu að úrlausn þessara mála, heldur voru ákvarðanir bankanna teknar vegna ráðlegginga starfsmanna þeirra og á grundvelli óháðs verðmats á umræddum eignum sjóðanna, enda þótt óvissa hafi verið um verðmæti ýmissa eigna á þessum tíma. Þannig voru ákvarðanir bankanna teknar á viðskiptalegum forsendum til þess að draga úr óvissu meðal viðskiptavina bankanna og peningamarkaðssjóðanna um endurgreiðslur. Í öllum tilfellum voru kaupin fjármögnuð með þeim hætti að innstæður voru stofnaðar fyrir sjóðsfélaga, í samræmi við tilmæli FME frá 17. október 2008. Þá hafa stjórnvöld einnig bent á að aðrar fjármálastofnanir á Íslandi á borð við Byr sparisjóð og SPRON, sem ekki voru í eigu ríkisins, tóku sambærilegar ákvarðanir í október 2008 um kaup á eignum til að stuðla að slitum á peningamarkaðssjóðum sem tengdust þeim.
Sá möguleiki er fyrir hendi að stjórnvöld vísi málinu til EFTA-dómstólsins, að því er varðar þá ályktun ESA að telja ráðstafanir bankanna hafa falið í sér ríkisaðstoð. Niðurstaða ESA er þó skýr hvað það varðar að ráðstafanirnar hefðu verið í samræmi við reglur EES-samningsins.
Fréttatilkynning á vef ESA vegna Arion og Landsbankans
http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/state-aid/nr/1724
Fréttatilkynning á vef ESA vegna málefna peningamarkaðssjóða
http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/state-aid/nr/1724
Tilmæli FME frá 17. október 2008
http://www.fme.is/utgefid-efni/frettir-og-tilkynningar/frettir/nr/447
Eldri fréttatilkynning ráðuneytisins vegna Íslandsbanka
http://www.fjarmalaraduneyti.is/almennar_frettir/nr/15607
Eldri fréttatilkynning ráðuneytisins vegna peningamarkaðssjóða
http://www.fjarmalaraduneyti.is/almennar_frettir/nr/13504