Fela má aðstoðarmönnum dómara fleiri dómstörf
Alþingi samþykkti í júní frumvarp innanríkisráðherra um breytingu á 17. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 sem fjallar um lögfræðilega aðstoðarmenn dómara. Nú getur dómstjóri falið aðstoðarmönnum önnur dómstörf en þau að fara með og leysa efnislega úr einkamálum þar sem vörnum er haldið uppi og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar.
Þessi breyting var lögð til í framhaldi af ályktun Félags löglærðra aðstoðarmanna dómara frá 18. nóvember 2011 sem send var innanríkisráðherra sem og áskorun dómstólaráðs til ráðherra um lagabreytingar af sama tilefni. Í ályktun félags aðstoðarmanna kemur fram að í máli nr. 577/2011 hafi Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að ómerkja yrði niðurstöðu héraðsdóms er varðaði synjun á heimild aðila til að leggja fram greinargerð í máli er varðaði gjaldþrotaskipti þar sem ákvörðun um synjun var tekin af aðstoðarmanni héraðsdómara.
Lagabreytingin tók gildi 12. júní sl. sem lög nr. 51/2012.