Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2012 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðurkenning fyrir umhverfisstefnu í hafinu

 

Samtökin World Future Council hafa tilnefnt stefnumörkun Íslands um vernd hafsins gegn mengun frá landi og á sviði fiskveiðistjórnunar til svokallaðra Framtíðarstefnuverðlauna. Alls eru tilnefningar WFC 31 talsins frá 22 ríkjum og svæðum. Samtökin veita þessa viðurkenningu árlega fyrir stefnumörkun ríkja sem miðar að því að bæta lífsskilyrði núlifandi og komandi kynslóða, en á þessu ári er einblínt á stefnumörkun sem miðar að vernd hafs og stranda.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að WFC hafi unnið að tilnefningunum í samvinnu við Samning S.þ. um líffræðilega fjölbreytni (CBD), Hnattræna umhverfissjóðinn (GEF) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ. (FAO). Sérfræðingar í málefnum hafsins frá alþjóðasamtökum, háskólum og frjálsum félagasamtökum hafi tilnefnt verkefni og stefnumörkun sem miði að því að vernda haf og strendur. Tilkynnt verður um úrslit í september nk.

Tilnefningar sem Ísland hlýtur eru annars vegar fyrir framkvæmdaáætlun um að draga úr mengun hafs frá landi og hins vegar fyrir lög um stjórn fiskveiða frá 2006. Áætlunin um varnir gegn mengun sjávar var gerð innan vébanda alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar gegn mengun hafs frá landi, sem Ísland átti mikinn þátt í að koma á fót á sínum tíma, en um 80% mengunar hafsins er talin koma frá uppsprettum á landi.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu World Future Council: http://www.worldfuturecouncil.org/future_policy_award.html

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta