Álagning á einstaklinga 2012
Fréttatilkynning nr. 10/2012
Niðurstöður álagningar ríkisskattstjóra á einstaklinga staðfesta viðsnúning í afkomu heimilanna á árinu 2011.
Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu á einstaklinga. Álagning 2012 tekjur mið af tekjum einstaklinga árið 2011 og eignum þeirra um áramótin, þ.e. 31. desember 2011.
Þann 1. ágúst nk. koma til útborgunar úr ríkissjóði til framteljenda 20,4 milljarðar króna eftir skuldajöfnun vegna vangoldinna krafna. Í fyrra voru greiddir út 23,7 milljarðar. Vaxtabætur eru stærsti hluti útborgunarinnar og nema þær 7,6 milljörðum. Auk þess nemur sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2,6 milljörðum og er hér um að ræða seinni útgreiðslu ársins. Útgreiðslur eru nánar sundurgreindar í eftirfarandi töflu:
Liður
|
m.kr.
|
---|---|
Barnabætur |
1.972
|
Vaxtabætur |
7.623
|
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla |
2.635
|
Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars |
6.975
|
Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts |
741
|
Annað |
447
|
Alls |
20.394
|
Fyrirkomulag barnabóta er óbreytt frá fyrra ári og nú verða greiddir út alls 7,5 milljarðar til 8% færri fjölskyldna en í fyrra. Til samanburðar nam heildarfjárhæð barnabóta um 8 milljörðum á síðasta ári. Fjárhæð meðalbóta er þó nær óbreytt á milli ára.
Ákvarðaðar almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2011, nema 8,8 milljörðum króna í ár. Almennar vaxtabætur fá 46.415 fjölskyldur.
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla sem nemur 0,6% af skuldum upp að hámarki sem er skert af eignum nemur samtals 5,7 milljörðum og hana fá rúmlega 97 þúsund einstaklingar. Stuðningur ríkisins við íbúðareigendur nemur þannig samtals 14,6 milljörðum, sem er yfir fjórðungur af heildarvaxtakostnaði heimila í landinu vegna íbúðarkaupa.
Framteljendum við álagningu 2012 fjölgar um 0,4% á milli ára og eru 261.764. Þetta er lítilsháttar viðsnúningur frá því sem verið hefur en á síðustu tveimur árum fækkaði framteljendum nokkuð. Framteljendur nú eru rúmlega 2% færri en árið 2009 þegar fjöldinn náði hámarki í 267.494.
Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2011 nam 876,1 ma.kr. og hefur hækkað um 7,8% frá fyrra ári. Skattstofnsins var aflað af tæplega 238 þúsund manns og hefur fjölgað um 0,1% í þeim hópi sem nú er orðinn jafn fjölmennur og við álagningu 2009.
Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 228,0 milljörðum króna og hækkar um 13,5% frá fyrra ári. Til samanburðar jókst álagning þessi um 1,4% 2010-2011.
Almennur tekjuskattur sem nam 107,1 milljörðum króna var lagður á rúmlega 156 þúsund framteljendur. Álagningin hefur aukist um 6,5% á milli ára og fjöldi gjaldenda um 3,1%. Af þeirri upphæð fóru 9,7 milljarðar til að greiða útsvar 95.068 framteljenda að hluta eða öllu leyti og 345 m.kr. til að greiða fjármagnstekjuskatt 5.012 framteljenda að hluta eða öllu leyti. Nú greiða tæplega 66% þeirra sem höfðu jákvæðan tekjuskatts- og útsvarsstofn tekjuskatt til ríkissjóðs og hefur það hlutfall hækkað nokkuð síðan í fyrra þegar það var tæplega 64%. Af þeim sem eru með tekjur ofan skattleysismarka borga u.þ.b. 24% hvorki tekjuskatt né útsvar.
Nú er í annað sinn lagður á tekjuskattur í þremur þrepum. Alls greiða 136 þúsund framteljendur skatt í miðþrepi, eða 87% þeirra sem greiða tekjuskatt. Álagning í miðþrepi nam 10,9 milljörðum. Tekjuskatt í efsta þrepi greiða tæplega 11 þúsund framteljendur, samtals 2,7 milljarða í skatt til viðbótar við það sem greitt er í neðri þrepunum.
Samtals eru dregnir rúmir 1,4 milljarðar frá tekjuskattstofni á grundvelli 18.737 framtala vegna frádráttar við viðhald húsnæðis. Þetta er í seinna sinn sem slíkur frádráttur er heimilaður en til samanburðar nam hann tæplega 1,6 milljarði í fyrra en þá voru framteljendur sem nýttu sér þetta úrræði 18,116.
Útsvarstekjur til sveitarfélaga nema alls 130,5 milljörðum króna sem er 19% aukning á milli ára. Þessi mikla aukning á sér að hluta til skýringu í hækkun útsvarshlutfalls vegna tilflutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitafélaga og tilsvarandi lækkun tekjuskattshlutfallsins. Útsvarstekjur reiknast af öllum skattstofninum en ónýttur persónuafsláttur greiðir skattinn að hluta.
Nokkur breyting var á álagningu fjármagnstekjuskatts frá fyrra ári. Skatthlutfall var hækkað og nam 20% en með óbreyttu 100.000 kr. frítekjumarki vaxtatekna. Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 10,3 milljörðum króna og hækkar um 1,4% milli ára. Talverð fækkun er á þeim sem greiða skattinn og eru þeir nú rúmlega 39 þúsund en voru tæplega 47 þúsund árið áður. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts hefur fækkað mjög mikið síðan frítekjumarki vaxta var komið á í fyrra en við álagningu 2010 voru gjaldendur skattsins tæplega 183 þúsund. Vextir eru enn stærsti einstaki liður fjármagnstekna og nema alls 49,5 milljörðum sem er rúmlega 22% aukning frá árinu áður. Vaxtatekjur eru þó hátt í 55% minni nú en þær voru árið 2009. Tekjur af arði nema 13,0 milljörðum sem er 6,9% aukning frá fyrra ári og leigutekjur nema 7,6 milljörðum sem er 16,0% aukning á milli ára.
Frumálagning auðlegðarskatts fer nú fram í þriðja sinn og endurálagning í annað sinn. Skatthlutfallið við álagningu 2012 er 1,5% af hreinni eign á bilinu 75-150 milljónir hjá einhleypum og 100-200 milljónir hjá hjónum en 2,0% af eign umfram þessi mörk. Fyrirkomulag skattsins hefur því breyst nokkuð frá síðustu álagningu þegar aðeins var um eitt þrep að ræða sem var 1,5% af eignum einhleypings umfram 75 milljónir og 1,5% af eignum hjóna umfram 100 milljónir. Auðlegðarskatt greiða nú 5.212 aðilar (3.101 fjölskylda), samtals 5,6 milljarða, sem er tæplega 17% aukning á milli ára.
Viðbótarálagning vegna hlutafjáreignar ársins á undan nær til heldur fleiri en greitt höfðu skattinn árið á undan. Álagningin, sem fór fram eftir reglum fyrra árs og með þeim mörkum sem þá giltu, nam 2,4 milljörðum, sem er ríflega 38% aukning á milli ára. Viðbótarauðlegðarskattur var lagður á 4.134 gjaldendur (2.360 fjölskyldur).
Framtaldar eignir heimilanna námu 3.611 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 4,2% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 2.458 milljarðar að verðmæti eða 68,0% af eignum en verðmæti þeirra hafði aukist um 9,3% milli ára. Eigendum fasteigna fækkaði enn milli ára og nú um tæplega 1%. Framtaldar skuldir heimilanna námu alls 1.759 milljörðum króna í árslok 2011 og höfðu dregist saman um 6,3% milli ára. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.124 milljörðum króna sem er 2,4% samdráttur á milli ára. Eigið fé heimila í fasteign sinni er nú að jafnaði 54% af verðmæti þeirra sem er nokkuð hærra hlutfall en við álagningu 2011 þegar hlutfall þetta datt í fyrsta sinn undir 50%. Tæplega 26 þúsund af 94 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess.
Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, nam 1.851,7 milljörðum um áramótin og hafði þar með aukist um tæp 17% á milli ára.
Útvarpsgjald nemur 3,4 milljörðum króna. Það nemur 18.800 kr. á hvern framteljanda á aldrinum 16-69 ára sem greiðir tekjuskatt. Greiðendum útvarpsgjalds fjölgar um rúmlega 4.100 milli ára. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra nemur 1,7 milljarði króna og eru greiðendur þess þeir sömu og greiða útvarpsgjald.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður Guðmundsson sérfræðingur á tekju- og skattaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.
Reykjavík, 25. júlí 2012