Hoppa yfir valmynd
28. júlí 2012 Utanríkisráðuneytið

Ráðstefnu um alþjóðlegan vopnaviðskiptasamning lokið

Ekki náðist samkomulag um gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasamnings á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York, en ráðstefnan hefur staðið frá því 2. júlí s.l. og lauk í gærkveldi.   Íslensk stjórnvöld lýsa yfir vonbrigðum með þessa niðurstöðu, en engar bindandi alþjóðlegar reglur ná yfir vopnaviðskipti og hefði víðtækur vopnaviðskiptasamningur markað stór skref fram á við í að koma á alþjóðlegum reglum um vopnaviðskipti og ná tökum á ólögmætum vopnaviðskiptum.

Íslensk stjórnvöld telja hins vegar þau samningsdrög sem lágu fyrir ráðstefnunni fela í sér grundvöll fyrir frekari samningaviðræður og munu eftir sem áður leggja áherslu á gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasamnings og beita sér fyrir áframhaldandi viðræðum í samvinnu við önnur ríki.

Ísland hefur stutt gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasamnings frá upphafi og tók virkan þátt í samningsgerðinni á ráðstefnunni. Fulltrúar Íslands beittu sér meðal annars fyrir virðingu fyrir mannréttindum og mannúðarlögum í ákvarðanatöku með vopnaviðskipti. Einnig var lögð sérstök áhersla á sérstöðu kvenna í vopnuðum átökum og að komið verði í veg fyrir viðskipti með vopn til að fremja kynbundið ofbeldi. Ísland var einnig í hópi þeirra ríkja sem kröfðust þess að samningurinn tæki til smá- og léttvopna og skotfæra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta