Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2012 Matvælaráðuneytið

Samráðshópur ráðherra og ráðuneyta vegna áforma um erlenda fjárfestingu á Grímsstöðum á Fjöllum

 

Á fundi ríkisstjórnar í morgun var samþykkt tillaga iðnaðarráðherra um að skipaður verði samráðshópur ráðherra og ráðuneyta til að fara yfir álitamál vegna áforma um erlenda fjárfestingu á  Grímsstöðum á Fjöllum. Hópurinn mun m.a. kanna sérstaklega mögulegar skuldbindingar ríkisins og sveitarfélaga. Samráðshópurinn verður skipaður fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Fulltrúum GáF, f.h. sveitarfélaganna, verður gerð grein fyrir þessari vinnu og kallað eftir upplýsingum um málið frá þeim eftir því sem þurfa þykir.

Í vor lagði nefnd þriggja ráðuneyta sem starfar á grundvelli laga nr. 99/2010 til við iðnaðarráðherra að gerður yrði  fjárfestingarsamningur vegna nýfjárfestinga í ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum. Drög að samningi voru kynnt í ríkisstjórn 4. maí sl. og því lýst yfir að hann yrði ekki undirritaður fyrr en ýmsum spurningum um þetta verkefni hefði verið svarað. Samningurinn hefur enn ekki verið undirritaður.

Í júní sl. veitti efnahags- og viðskiptaráðuneytið heimild til að stofna félagið Zhongkun Grímsstaðir ehf.  Félagið er í eigu Bejing Zhongkun Investment Group Co. Ltd en stjórnarmaður og aðaleigandi þess félags er Huang Nubo.  Ítarleg skoðun innan ráðuneytisins leiddi í ljós að engin fordæmi og engin málefnaleg sjónarmið sem hægt er að styðja lögskýringargögnum eru fyrir því að hafna sambærilegum beiðnum. Var það rækilega útskýrt í minnisblaði sem kynnt var í ríkisstjórn þann 12. júní síðastliðinn.   

Félagið Zhongkun Grímsstaðir ehf.  hefur lýst yfir áhuga á uppbyggingu ferðamennsku á Grímsstöðum á Fjöllum. Samkvæmt umsókn félagsins til fyrrgreindar nefndar  er gert ráð fyrir að kostnaður við uppbyggingu á Grímsstöðum verði um 16,2 milljarðar íslenskra króna á næstu fimm árum. 

Sex sveitarfélög á Norðausturlandi hafa lýst yfir áhuga á að kaupa jörðina og leigja tiltekinn hluta (um 300 hektara) undir hótelbyggingar en áformað er að jörðin verði að öðru leyti gerð að fólkvangi.  Sveitarfélögin sex sem standa að baki verkefninu eru Akureyrarkaupstaður, Fljótdalshérað, Hörgársveit, Grýtubakkahreppur, Norðurþing og Vopnafjarðarhreppur.  Þau hafa stofnað með sér félagið GáF sem sjá mun um framkvæmdina fyrir hönd sveitarfélaganna.

Í dag er jörðin í meirihlutaeigu einkaaðila en ef að kaupum sveitarfélaganna yrði myndi hún verða nánast að öllu leyti í opinberri eigu. Jörðin er enn óskipt en sveitarfélögin, sem tilvonandi aðaleigendur jarðarinnar, hafa farið fram á það við aðra eigendur hennar þ.á m. ríkið að jörðinni verði skipt upp.

Eins og að framan greinir þá liggja fyrir drög að fjárfestingasamningi. Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu liggur fyrir beiðni sveitarfélaganna um uppskipti landsins á Grímsstöðum.

Ýmis álitamál hafa komið upp við vinnslu þessa máls. Mikilvægt er að skoða hver áhrif þessarar fjárfestingar yrðu  til framtíðar með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins og sveitarfélaganna. Þá er mikilvægt að tryggja að fjárhag umræddra sveitarfélaga verði ekki stefnt í hættu vegna þessa verkefnis t.d. ef ekkert verður úr fyrirhugaðri uppbyggingu. Eins er ýmsum spurningum ósvarað hvað varðar uppbyggingu  innviða í tengslum við þetta verkefni og hver beri ábyrgð á henni. Jörðin er t.d ekki tengd við dreifikerfi raforku og engar upplýsingar liggja fyrir um það hvernig sinna á raforkuþörf á svæðinu. Þá kunna að vakna spurningar hvort  ríkið þurfi að niðurgreiða kostnað vegna kyndingar svo dæmi sé tekið. Kröfur geta komið fram um þætti eins og snjómokstur, skóla og heilbrigðisþjónustu ef af fjárfestingunni verður. Jafnframt hafa komið fram hugmyndir um endurbætur á flugvelli. Loks ber að nefna að Grímstaðir ligga við mörk Vatnajökulsþjóðgarðs og í jaðri miðhálendisins og öll áfom um uppbyggingu þar þarf því að skoða í ljósi þess.       

Jafnframt hafa komið fram misvísandi fréttir undanfarið sem hafa aukið á óvissu um eðli og umfang verkefnisins. Nauðsynlegt er að þessum spurningum um þetta verkefni verði svarað áður en ákvörðun verður tekin um fjárfestingarsamning og afstaða tekin til málsins að öðru leyti. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta