Hæfnisnefnd verður ráðherra til aðstoðar við val á embættismönnum í nýtt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar
Nýtt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar verður formlega stofnsett 4. september n.k. við sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og hluta efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Í nýju ráðuneyti er aðkoma ríkisins að stærstu atvinnugreinum þjóðarinnar og nýsköpun samræmd og markmiðið er að fyrir vikið verði stjórnsýslan bæði öflugri og skilvirkari.
Fyrir liggur að ganga frá skipuriti hins nýja ráðuneytis, bjóða öllum starfsmönnum ráðuneytanna þriggja störf og skipa í embætti ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Skipuð hefur verið hæfnisnefnd sem mun vera ráðherra til ráðgjafar við val á þeim embættismönnum ráðuneytanna þriggja sem sækjast eftir embættum hjá hinu nýja ráðuneyti. Formaður nefndarinnar er doktor Ásta Bjarnadóttir mannauðsfræðingur en með henni munu starfa þau Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Margrét Guðmundsdóttir formaður Félags atvinnurekenda.