Utanríkisráðuneytið hvetur fyrirtæki til að koma upplýsingum um viðskiptahagsmuni á framfæri vegna fríverslunarviðræðna
Utanríkisráðuneytið fer með gerð fríverslunarsamninga fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, en flestir fríverslunarsamningar Íslands eru gerðir í samstarfi við samstarfsríkin í fríverslunarsamtökum Evrópu - EFTA (Noreg, Sviss og Liechtenstein). Meðal þeirra ríkja sem EFTA stendur nú í fríverslunarviðræðum við eru Víetnam, Indónesía og Mið-Ameríkuríkin Gvatemala, Hondúras, Kostaríka og Panama (með hugsanlegri þátttöku El Salvador og Níkaragva). Einnig er hafinn undirbúningur að viðræðum við Malasíu. Þá stendur til að endurskoða gildandi fríverslunarsamningana við Chile, Kanada og Jórdaníu, m.a. á sviði þjónustuviðskipta. Af þessu tilefni vill utanríkisráðuneytið hvetja fyrirtæki og hagsmunaaðila á Íslandi til að koma upplýsingum um viðskiptahagsmuni sína í þessum ríkjum á framfæri við ráðuneytið.
Víetnam
Fyrsta lota samningaviðræðna um gerð fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Víetnam var haldin í Hanoi í maí sl. Stefnt er að því að samningurinn muni ná til vöru- og þjónustuviðskipta ásamt ákvæðum um fjárfestingar, lagaleg málefni, vernd hugverkaréttinda og sjálfbæra þróun. Næsta samningalota er fyrirhuguð í október nk.
Töluverðir hagsmunir eru af því að gera fríverslunarsamning við Víetnam. Vöruviðskipti milli EFTA-ríkjanna og Víetnam nam um 1,5 milljarði Bandaríkjadala árið 2011. Þar af nam vöruútflutningur frá Íslandi um 700 milljónum króna sem er rúmlega 80% aukning frá árinu áður. Vegur þar mest aukning í útflutningi á sjávarafurðum.
Indónesía
Fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og Indónesíu hófust í janúar 2011 með fundi í Jakarta og hafa nú þegar farið fram nokkrar samningalotur. Stefnt er að því að samningurinn muni m.a. taka til vöru- og þjónustuviðskipta, fjárfestinga og samstarfs á sviði hugverkaréttar.
Vöruviðskipti EFTA-ríkjanna og Indónesíu námu um einum milljarði Bandaríkjadala árið 2011 og hafa aukist stöðugt undanfarin ár. Helstu útflutningsvörur Íslands til Indónesíu eru iðnaðarvörur, eða um 80% heildarútflutnings sem var alls um 300 milljónir króna árið 2011.
Mið-Ameríkuríki
EFTA-ríkin hófu í ársbyrjun 2012 viðræður við Mið-Ameríkuríkin Gvatemala, Hondúras, Kostaríka og Panama um gerð fríverslunarsamnings milli ríkjanna. Sá möguleiki er fyrir hendi að El Salvador og Níkaragva komi að samningnum á seinni stigum. Fyrsta lota viðræðnanna fór fram í Genf í febrúar sl. og er næsta lota fyrirhuguð í ágúst.
Vöruviðskipti milli EFTA-ríkjanna og Mið-Ameríkuríkjanna hafa vaxið mikið undanfarið og námu um 1 milljarði Bandaríkjadala árið 2011. Viðskipti Íslands við Mið-Ameríkuríkin hafa ekki verið mikil fram að þessu. Samningurinn mun ná til bæði vöru- og þjónustuviðskipta auk þess sem stefnt er að því að hann taki til samstarfs á sviði hugverkaréttinda og fleiri þátta.
Malasía
EFTA-ríkin og Malasía undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um undirbúning fríverslunarviðræðna árið 2010. Síðan þá hafa farið fram fundir um hagkvæmni þess að hefja fríverslunarviðræður milli ríkjanna.
Útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi til Malasíu hefur þrefaldast undanfarin tvö ár og vegur þar mest útflutningur á makríl. Malasía er ört vaxandi hagkerfi og myndi gerð fríverslunarsamnings styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á þeim fjölbreytilega markaði.
Chile
Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Chile tók gildi árið 2004. Viðskipti ríkjanna hafa aukist töluvert með tilkomu samningsins en áfram er unnið að því að viðhalda og auka viðskipti ríkjanna. Ákveðið hefur verið að hefja viðræður um endurskoðun þess hluta samningsins sem snýr að þjónustuviðskiptum, með það að markmiði að auka markaðsaðgang á því sviði.
Kanada
Fríverslunarsamningurinn við Kanada sem tók gildi 2009 tekur aðeins til vöruviðskipta en vilji hefur verið til þess að útfæra gildissvið hans til þjónustuviðskipta, fjárfestinga og fleiri þátta. Stefnt er að því að viðræður þar um hefjist í haust.
Jórdanía
Gildandi fríverslunarsamningur EFTA og Jórdaníu frá 2002 nær aðeins til vöruskipta, en viðræður standa nú yfir um að útfæra gildissvið hans til þjónustuviðskipta.
Utanríkisráðuneytið hvetur fyrirtæki og einstaklinga eindregið til að koma á framfæri við ráðuneytið upplýsingum um viðskiptahagsmuni í þessum löndum, á sviði vöru- og þjónustuviðskipta (tollanúmer vöru/gerð þjónustu) sem óskað er eftir að lögð verði áhersla á í viðræðunum. Ef fyrirtæki koma sjónarmiðum sínum á framfæri tímanlega getur íslenska samninganefndin haft þau að leiðarljósi við gerð samninga.
Hægt er að koma ábendingum á framfæri við Evu M. Kristjánsdóttur á viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins í síma 545-8921 og á netfangið [email protected]