Heimsókn kínverska ísbrjótsins Snædrekans og málþing um heimskautarannsóknir
Kínverski ísbrjóturinn Xu Long eða Snædrekinn heimsækir Ísland næstu daga í boði íslenskra stjórnvalda í tengslum við fimmta rannsóknarleiðangur Kína á norðurslóðum. Rannsóknamiðstöð Íslands (RANNÍS) heldur utan um heimsóknina í samstarfi við fjölmarga innlenda aðila.
Á meðan á Íslandsdvöl Snædrekans stendur mun ísbrjóturinn heimsækja Reykjavík 16.-18. ágúst og Akureyri 19.-20. ágúst. Dagskrá heimsóknarinnar verður fjölþætt; meðal annars verða tvö málþing um norðurslóðarannsóknir ríkjanna og opnir dagar Snædrekans. Íslendingum gefst því bæði kostur á að fræðast um norðurslóðasamstarf þjóðanna og fara um borð í Snædrekann.
Nánari upplýsingar um heimsókn Snædrekans og dagskrá henni tengdri er að finna á heimsíðu RANNÍS.