Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

HRINGÞING um menntamál innflytjenda

Hringþing um menntamál innflytjenda
Hringþing um menntamál innflytjenda

Fjallað verður um stöðu og framtíð menntamála innflytjenda á öllum skólastigum og í fullorðinsfræðslu á opnu þingi sem haldið verður í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík 14. september kl. 8.30-16.30. Aðgangur er ókeypis.

Helsta markmið þingsins er að skapa samræðuvettvang þeirra fjölmörgu sem koma að menntamálum innflytjenda. Leitað verður álits þinggesta á forgangsröðun verkefna við þróun þessara mála og rætt hver skuli vera helstu forgagnsverkefni á sviði menntamála innflytjenda í framkvæmdaáætlun sem mótuð verður á næstu misserum. Á þinginu verða einnig kynnt áhugaverð og hagnýt verkefni sem tengjast menntamálum innflytjenda.

Þingið er öllum opið og eru allir sem áhuga hafa á málefninu boðnir velkomnir. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku fulltrúa innflytjenda, kennara, stjórnenda, foreldra og nemenda og annarra sem tengjast á einhvern hátt leik-, grunn-, framhalds- og háskólastigi og fullorðinsfræðslu. Eins er mikilvægt að þeir sem vinna að mótun og framkvæmd stefnu á ýmsum sviðum menntunar innflytjenda sæki þingið og leggi sitt af mörkum með virkri þátttöku.

Fjárfestum í menntun

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra„Við eigum að viðurkenna og meta þekkingu, menntun og reynslu þess fólks sem hingað kemur og tryggja að hún nýtist. Við eigum að fjárfesta í menntun innflytjenda líkt og annarra og stuðla með því að farsælli aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Þannig veitum við fólki færi á að nýta hæfileika sína og samfélagið allt nýtur góðs af“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Hann bendir á að árlega flyst hingað til lands fjöldi fólks af erlendum uppruna og einnig íslenskar fjölskyldur sem búið hafa erlendis um lengri eða skemmri tíma. „Það er því nokkuð fjölmennur hópur fólks, barna og fullorðinna, sem við verðum að tryggja að fái notið menntunar í skólakerfinu til jafns við aðra landsmenn. Fullorðinsfræðsla er einnig veigamikill þáttur í aðlögun fólks að íslensku samfélagi og því mikilvægt að huga vel að innihaldi fræðslunnar, skipulagi hennar og framkvæmd. Þetta eru viðfangsefni þingsins sem ég veit að verður áhugavert og ég vænti mikils af.“

Dagskrá þingsins, kynning verkefna og skráning

Dagskrá þingsins er aðgengileg á vefsíðu þingsins, http://tungumalatorg.is/hringthing/ og þar fer skráning einnig fram. Þeir sem hafa áhuga á að kynna verkefni sem tengjast menntamálum innflytjenda á þinginu þurfa að skrá upplýsingar um það í sérstakt form á vefsíðunni, eigi síðar en 27. ágúst. Skráning þátttakenda stendur til 10. september eða eins lengi og húsrúm leyfir.

Að þinginu standa: Innflytjendaráð, velferðarráðuneytið, mennta- og menningarmála­ráðuneytið, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur­borgar, Fjölmenningarsetur, Tungumálatorg, Háskóli Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta