HRINGÞING um menntamál innflytjenda
HRINGÞING um menntamál innflytjenda.
Opið þing um stöðu og framtíð menntamála innflytjenda á öllum skólastigum og um fullorðinsfræðslu fyrir innflytjendur
Fjallað verður um stöðu og framtíð menntamála innflytjenda á öllum skólastigum og um fullorðinsfræðslu fyrir innflytjendur, á opnu þingi sem haldið verður í Rúgbrauðsgerðinni í Reykjavík 14. september frá kl. 8.30-16.30. Velferðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra ávarpa þingið, kynnt verða fyrirmyndarverkefni, hringborðsumræður verða um efni þingsins og mennta- og menningarmálaráðuneytistendur fyrir málstofu um helstu álitamál í tengslum við menntamál innflytjenda, stöðu mála og mikilvægar aðgerðir.
Helstu markmið þingsins eru að skapa samræðuvettvang þeirra fjölmörgu sem koma að menntamálum innflytjenda og varpa ljósi á stöðu þessara mála á öllum skólastigum. Jafnframt verður leitað álits þinggesta á forgangsröðun verkefna við þróun þessara mála og leitast við að greina hver skuli vera helstu forgagnsverkefni á sviði menntamála innflytjenda í framkvæmdaáætlun sem mótuð verður á næstu misserum. Á þinginu verða einnig kynnt áhugaverð og hagnýt verkefni sem tengjast menntamálum innflytjenda.
Þingið er öllum opið og eru foreldrar, nemendur og allir aðrir sem áhuga hafa á málefninu boðnir velkomnir. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku fulltrúa innflytjenda, kennara, stjórnenda og annarra sem tengjast á einhvern hátt leik-, grunn-, framhalds- og háskólastigi og fullorðinsfræðslu. Eins er mikilvægt að þeir sem vinna að mótun og framkvæmd stefnu á ýmsum sviðum menntunar innflytjenda sæki þingið og leggi sitt af mörkum með virkri þátttöku. Þátttaka er ókeypis.
Dagskrá þingsins, kynning verkefna og skráning
Dagskrá þingsins er aðgengileg á vefsíðu þingsins, http://tungumalatorg.is/hringthing og þar fer skráning einnig fram. Þeir sem hafa áhuga á að kynna verkefni sem tengjast menntamálum innflytjenda á þinginu þurfa að skrá upplýsingar um það í sérstakt form á vefsíðunni, eigi síðar en 24. ágúst. Skráning þátttakenda stendur til 10. september eða eins lengi og húsrúm leyfir.
Að þinginu stand Innflytjendaráð, velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Fjölmenningarsetur, Tungumálatorg, Háskóli Íslands, Þjónustumiðstöð Breiðholts og Samband íslenska sveitarfélaga.