Ráðherra heimsækir Skriðuklausturshátíð
Viljayfirlýsing um Menningarsjóð Stofnunar Gunnars Gunnarssonar undirrituð og minjasvæði vígt.
Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Gunnarsstofnunar þess efnis að ráðherra beiti sér fyrir því að sú fjárhæð, sem nemur andvirði fallbóta frá Landsvirkjun vegna endurgjalds fyrir þau vatnsréttindi sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar, renni í Menningarsjóð Stofnunar Gunnars Gunnarssonar. Sjóðurinn verður stofnaður með sérstakri skipulagsskrá á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis. Undirritunin fór fram á Skriðuklausturshátíð, sem fram fór á Skriðuklaustri í Fljótsdal 19. ágúst, en auk ráðherra undirritaði Gunnar Björn Gunnarsson, stjórnarformaður Gunnarsstofnunnar, yfirlýsinguna.
Á hátíðinni var því fagnað að fornleifarannsókn á svæðinu, þar sem áður fyrr stóð klaustur, er nú lokið en hún hefur staðið yfir í rúman áratug og leitt margt forvitnilegt í ljós um klausturlífið. Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur, hefur farið fyrir þessari viðamiklu rannsókn og afhenti hún mennta- og menningarmálaráðherra fyrsta eintakið af nýrri bók um staðinn og rannsóknina.
Einnig var við þetta tækifæri opnaður aðgangur almennings að minjasvæðinu, nýr útsýnispallur var vígður og Guðsþjónusta fór fram undir beru lofti í rústum gömlu kirkjunnar, sem vígð var fyrir réttum fimmhundruð árum, síðsumars árið 1512. Sr. Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur á Valþjófsstað og David Tencer, prestur kaþólsku kirkjunnar á Kollaleiru í Reyðarfirði, þjónuðu fyrir altari en biskup Íslands, Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, predikaði.