(Há)spenna hjá vegagerðinni, löggunni og Landspítalanum fyrir rafmagnsbíl
Í sumar hefur fagurrauður Mitsubishi MiEV rafmagnsbíll í eigu Iðnaðarráðuneytisins verið í láni hjá fjölmörgum stofnunum og fyrirtækjum. Bíllinn sem jafnan er kallaður jarðarberið hefur undantekningalaust vakið mikla lukku og opnað augu margra fyrir fyrir vistvænum og rekstrarlegum kostum rafmagnsbíla , en í vor var ákveðið á Alþingi að fella niður virðisaukaskatt af raf-, vetnis- og tengiltvinnbílum.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri lýsir yfir miklum áhuga á að setja í gang verkefni sem miðar að því að fá fullbúinn lögreglubíl sem knúinn er rafmagni.
Halldór Hallgrímsson hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands segir að þar sem starfsmenn stofnunarinnar þurfi oft að aka langan veg þá sé drægni rafhlöðunnar (60-70 km) takmarkandi þáttur en fyrir heimahjúkrun þar sem á hverjum degi eru eknir innan við 50 km henti bíllinn fyrirtaks vel.
Sigmundur Arnar Arnórsson hjá Vinnumálastofnun segir rafmagnsbílinn hafa komið skemmtilega á óvart; kraftmikill, snarpur, fljótur upp og lipur í snúningum.
Birna Helgadóttir hjá Landspítala hrósar bílnum í hástert og segir að rafmagnsbíll gæti svo sannarlega komið sér vel á Landspítalanum.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri hrósar góðum kostum rafbílsins, m.a. hljóðleysi og hagkvæmni í rekstri. Hreinn segir það vel koma til greina að næsti bíll sem stofnunin kaupi til að nota innanbæjar verði rafbíll – en enn um sinn sé drægni rafbíla ekki nægjanleg til utanbæjarferðalaga.