Undirbúningur vegna stofnunar nýs atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytis gengur vel
Nýtt ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar verður formlega stofnsett 4. september n.k. og gengur öll undirbúningsvinna samkvæmt áætlun. Í hádeginu í dag voru drög að skipuriti nýja ráðuneytisins kynnt starfsmönnum, en skipuritið byggir ekki hvað síst á niðurstöðum viðamikillar hópavinnu starfsmanna ráðuneytanna þriggja sem munu sameinast.
Í vikunni var jafnframt fundur með forsvarsmönnum þeirra stofnana sem koma til með að heyra undir nýja ráðuneytið og ríkti almenn jákvæðni með nýtt fyrirkomulag og sáu fundarmenn fjölmörg tækifæri því samfara.
Í næstu viku mun hæfnisnefnd ræða við þá embættismenn ráðuneytanna þriggja sem sækjast eftir embættum hjá hinu nýja ráðuneyti, en hæfnisnefndin var skipuð til að vera ráðherra til ráðgjafar við val á ráðuneytisstjóra og skrifstofustjórum.
Jafnframt er ráðgerður kynningar- og umræðufundur með helstu hagsmunaaðilum sem tengjast atvinnulífinu.