Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hluta- og sameignarfélögum sett almenn eigandastefna

Almenn eigandastefna ríkisins: Hlutafélög og sameignarfélög
Almenn eigandastefna ríkisins: Hlutafélög og sameignarfélög

Fjármálaráðuneytið hefur sett hlutafélögum og sameignarfélögum í eigu ríkisins almenna eigandastefnu. Kjarni stefnunnar er að félög í eigu ríkisins séu rekin með faglegum og gagnsæjum hætti þannig að almennt traust ríki á stjórn og starfsemi þeirra.

Grundvöllur eigandahlutverksins byggist á almennum leiðbeiningum og viðmiðum um góða stjórnarhætti fyrirtækja og hlutverk og skyldur eiganda. Eigandastefnu er í meginatriðum ætlað að:

  • Marka ramma um meðferð á eignarhaldi hlutafélaga og sameignarfélaga ríkisins.
  • Mæla fyrir um markmið eiganda með eignarhaldinu.
  • Gera grein fyrir samskiptaleiðum eiganda við félagið.
  • Skýra ábyrgðarskil eiganda og stjórnar.
  • Mæla fyrir um góða starfshætti.
  • Gera grein fyrir helstu sjónarmiðum sem ríkið sem eigandi vill tekið tillit til við starfsemi félagsins.
  • Vera stjórnarmönnum og stjórnendum félagsins leiðarljós við störf í þágu þess.
  • Sjá til þess að markmið og meginreglur eiganda séu aðgengilegar almenningi.

Eigandastefnan byggir að stærstum hluta á 10 meginreglum eða grunnsjónarmiðum um góða og árangursríka starfshætti félaga í opinberri eigu. Þessi grunnsjónarmið eru síðan útfærð frekar og skýrð í meginmáli eigandastefnunnar. Gerð er ítarleg grein fyrir þeim kröfum og viðmiðum sem ríkið gerir til félaganna út frá umræddum reglum.

Gert er ráð fyrir að stefnan gildi um öll hlutafélög og sameignarfélög að hluta til eða að öllu leyti í eigu ríkisins.  Sé ríkið eigandi félags að minnihluta er eftir sem áður gert ráð fyrir að fulltrúi ríkis í stjórn slíks félags taki eins og kostur er mið af reglunum við stjórnarstörf sín.

Þrátt fyrir að hin almenna eigandastefna ríkisins muni gilda almennt um félög í ríkiseigu kann sérstaða sumra þeirra að kalla á ítarlegri stefnu eða markmið eiganda en þar er að finna. Í vissum tilvikum er því þörf á að setja tilteknum félögum sérstaka eigandastefnu vegna séreðlis þeirra eða vegna ákveðinna sérsjónarmiða í starfsemi þeirra. Þannig er í vinnslu sérstök eigandastefna vegna orkufyrirtækja í eigu ríkisins. Auk þess má benda á stefnu sem sérstaklega var sett fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins fyrir nokkrum árum.    

Ráðuneytið mun á næstunni kynna eigandastefnuna fyrir núverandi stjórnarmönnum og stjórnendum félaga í eigu ríkisins. Þá er mikilvægt að hún verði jaframt kynnt öllum nýjum stjórnarmönnum sem kosnir verða í stjórnir félaganna.

Almenn eigandastefna ríkisins: Hlutafélög og sameignarfélög

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta