Landgræðsluverðlaunin afhent
Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, afhenti landgræðsluverðlaunin við hátíðlega athöfn í Félagsheimilinu Hofgarði í Öræfum sl. miðvikudag. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum.
Með viðurkenningunni vill Landgræðsla ríkisins vekja athygli á fórnfúsu starfi fjölda þjóðfélagsþegna að landgræðslumálum og jafnframt hvetja aðra til dáða.
Að þessu sinni voru þrír verðlaunagripir afhentir. Arnór Benediktsson og Ingifinna Jónsdóttir, bændur á Hvanná II á Jökuldal hlutu landgræðsluverðlaunin m.a. fyrir að hafa breytt um 85 hekturum af illa förnu landi í gróið nytjaland. Þá var Arnór lengi formaður ráðgjafanefndar Landbótasjóðs N-Héraðs.
Einnig hlutu verðlaunin Benedikt Arnórsson og Guðrún Agnarsdóttir, bændur á Hofteigi á Jökuldal, m.a. fyrir að hafa unnið að uppgræðslu á um 100 hekturum lands. Benedikt hefur einnig verið einn meginverktaka í uppgræðsluverkefnum Landbótasjóðs N-Héraðs.
Loks hlutu „Ungmenni í Öræfum“ landgræðsluverðlaunin en þau hafa undanfarin 20 ár borið hita og þunga af uppgræðslustarfi Landgræðslufélags Öræfinga. Geta unglingarnir byrjað í landgræðsluvinnunni árið sem þau verða 10 ára og hafa hóparnir sýnt einstakan dugnað og metnað, oft við erfiðar aðstæður og í misjöfnum veðrum.
Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju á Miðhúsum á Héraði.