Fundi forsætisráðherra Danmerkur og Íslands á Þingvöllum lokið
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tók á móti Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, við Hakið á Þingvöllum en hún kom í opinbera heimsókn til landsins á hádegi í dag. Þær héldu þaðan niður Almannagjá og að Lögbergi ásamt föruneyti undir leiðsögn Ólafs Arnar Haraldssonar, þjóðgarðsvarðar.
Að lokinni gönguferðinni héldu þær í embættisbústað forsætisráðherra á Þingvöllum þar þar sem þær settust að fundarborði ásamt embættismönnum og ráðgjöfum.
Að lokinni för til Þingvalla skoðaði Helle Thorning-Schmidt Alþingishúsið í fylgd Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, þingforseta, nú síðdegis.
Í kvöld heldur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og frú Jónína Leósdóttir danska forsætisráðherranum og föruneyti hennar kvöldverð í Þjóðmenningarhúsinu.
Helle Thorning-Schmidt heldur af landi brott áleiðis til Grænlands í fyrramálið.