Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2012 Matvælaráðuneytið

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Bændasamtök Íslands gera með sér samning

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Bændasamtök Íslands gera með sér svohljóðandi samning

um verkefni samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998 og framlög ríkisins til þeirra á árunum 2011 og 2012:

Inngangsorð

Samningur þessi er gerður í framhaldi af gildandi búnaðarlagasamningi frá 24. maí 2005, en í skugga þeirrar staðreyndar að framlög til verkefnanna hafa verið skert verulega vegna efnahagshrunsins.  Þessum samningi er ætlað að leysa óvissu um fjármögnun þeirra verkefna sem samtök bænda annast og ríkissjóður veitir fé til og brúa bilið þangað til ætla má að samninga verði hægt að gera í stöðugu efnahagsumhverfi. 

I. KAFLI.

Almennt

1.gr.

Samkvæmt 3. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 veitir ríkissjóður fé til verkefna á sviði jarðabóta, búfjárræktar og leiðbeiningastarfsemi, hér eftir í samningi þessum nefnd ráðgjafarþjónusta, sem og til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins vegna atvinnuuppbyggingar í sveitum og verkefna sem stuðla að aukinni framleiðni í íslenskum landbúnaði.

Öll framlög sem ríkissjóður greiðir til ráðgjafarþjónustu, búfjárræktar,  jarðabóta og Framleiðnisjóðs skal greiða til Bændasamtaka Íslands sem annast ráðstöfun fjármuna samkvæmt samningi þessum.

 

2. gr.

Fjárhæðir sem samið er um að ríkissjóður veiti til verkefna skv. 1. grein árin 2011 og 2012 eru sem hér segir í milljónum króna:

 

 Ár 2011  2012 
 Ráðgjafarþjónusta:    

 Landsþjónusta BÍ

 184,3

 184,3

 Héraðaþjónusta (bsb.)

 117,6 

 117,6

 Búfjárrækt  

 86,4 

 86,4

 Þróunarverkefni 

 11,7 

 11,7

 Framleiðnisjóður landbún.

 15,3 

 25,0

 Samtals:   

  415,3

 425,0

           

Auk þeirra framlaga sem samið er um í samningi þessum hefur einnig verið samið um fjármuni til sambærilegra verkefna í eftirfarandi samningum milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands um stuðning við  einstakar búgreinar:

1. Samningur um framleiðslu sauðfjárafurða frá 25. janúar 2007, með gildistíma frá 1. janúar 2008 ti131. desember 2013. Með viðauka frá 2009.

2. Aðlögunarsamningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 12. mars 2002, með gildistíma frá 1.  janúar 2002 til 31. desember 2011. Með viðauka frá 2009.

3. Samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004, með gildistíma frá 1. september 2005 ti1 31. ágúst 2012. Með viðauka frá 2009.

 

Samkomulag er um það að Bændasamtök Íslands greiði af framlagi sínu til landsþjónustunnar niðurgreiðslur á aksturskostnaði dýralækna með sama hætti og áður, þó þannig að niðurgreiðslurnar taki sömu skerðingu og framlagið til BÍ.

 

II. KAFLI.

Ráðgjafarþjónusta

3. gr.

Áherslur og framlög.

Ríkissjóður greiðir árlega framlög samkvæmt 2. grein samnings þessa til ráðgjafarþjónustu, sem skal ráðstafað í samræmi við markmið 17. gr. og fyrirkomulag skv. 18. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998. Þjónustan greinist í tvennt, landsþjónustu á vegum Bændasamtaka Íslands og héraðaþjónustu á vegum búnaðarsambanda/leiðbeiningarmiðstöðva.

Megináherslur á einstökum sviðum eru eftirfarandi:

Jarðrækt: Efling ræktunarmenningar, hagkvæm fóðuröflun með lágmarks röskun umhverfis. Viðhald framræslu og endurræktun - gras, grænfóður og korn. Markviss áburðarnotkun með tilliti til hagkvæmni og umhverfissjónarmiða, þar með talin hámarksnýting búfjáráburðar.

Garðyrkja - ylrækt: Gæðastýring með tilliti til hagkvæmni og lágmörkunar í notkun hjálparefna. Þróun raflýsingar, átak í framleiðniaukningu, lenging uppskerutíma, aukin fjölbreytni í ræktun. 

Búfjárrækt: Aukin afurðasemi, fjölbreyttari og betri afurðir og hagkvæmari framleiðsla. Áframhaldandi þróun og nýting bestu kynbótaaðferða, stöðugt endurmat á ræktunarmarkmiðum með tilliti til óska neytenda og aukin þátttaka bænda í kynbótastarfi. Gæðastýring, nákvæmnisfóðrun og umhirða er tryggi velferð búfjárins. 

Hagfræði og rekstrarráðgjöf: Átak í rekstrar- og fjármálaráðgjöf á vegum Bændasamtaka Íslands og búnaðarsambanda. Sérstök áhersla á uppbyggingarstarf fjármála þeirra bænda sem urðu illa úti í efnahagshruninu. Áhersla lögð á þverfaglega samvinnu og tengingu við aðgerðaáætlanir í búrekstri, s.s. fóður- og áburðaráætlanir. 

Lífrænn búskapur:  Bændur verði studdir til þess að takast á við þetta verkefni með því að kanna markaðslegar forsendur og hve vel tilteknar jarðir og framleiðsla hentar til aðlögunar að lífrænum búskap.

Sjálfbær þróun og landnýting: Stuðlað verði að sjálfbærni í landnotum með markvissri beitarstjórn og fræðslu m.a. um mikilvægi ræktarlands og líffræðilegrar fjölbreytni.

Byggingar og bútækni: Áhersla á markvissa ráðgjöf vegna hagræðingar sem ætlað er að skila aukinni hagkvæmni í framleiðslu til lengri tíma. 

Undir framlög til ráðgjafarþjónustu falla framlög vegna umsjónar með verkefnum samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998.

 

4. gr.

Landsþjónusta.

Landsþjónustan hefur, ásamt fagráðum, forystu um áherslur, þekkingaröflun (sí­ og endurmenntun) og skipulag ráðgjafarstarfsins í landinu, veitir héraðsráðunautum upplýsingar og aðstoð og annast einstaklingsleiðbeiningar í þeim greinum og á þeim sviðum, þar sem ekki er grundvöllur fyrir að veita sérhæfða ráðgjöf á vegum búnaðarsambanda / leiðbeiningarstöðva.

Landsþjónustan sinnir eftirtöldum greinum eða fagsviðum:

Jarðrækt

Garðyrkja - ylrækt

Búfjárrækt: nautgripa-, sauðfjár-, hrossa-, svína-, alifugla-, loðdýrarækt, kynbótafræði og þróun

Búrekstur og hagfræði

Bútækni

Lífrænn búskapur

Landnýting

Nýting hlunninda.

Landsráðunautar starfa í umboði stjórnar BÍ. Þeir veita forystu og samræma ráðgjafaþjónustu á landsvísu, hver í sinni búgrein og skulu leggja metnað sinn í að leiða framþróun í sínu fagi í samráði við fagráð viðkomandi búgreinar. Þeir eru stjórnvöldum til ráðuneytis, hver á sínu sviði.

 

5. gr.

Héraðsþjónusta.

Héraðsráðunautar og aðrir starfsmenn leiðbeiningamiðstöðva búnaðarsambandanna stuðla að því að markmiðum samnings þessa verði náð í viðkomandi héruðum.  Þeir skulu hafa faglegt og stjórnsýslulegt samráð við landsráðunauta eftir því sem við á.   Lögð er áhersla á heimsóknir til bænda og sérhæfða einstaklingsráðgjöf, sem búnaðarsambönd eða leiðbeiningarmiðstöðvar munu veita á eftirtöldum sviðum:

Jarðrækt

Nautgriparækt

Sauðfjárrækt

Hrossarækt

Landnýting

Hagfræði, rekstrargreining og áætlanir.

Landsþjónusta BÍ annast einstaklingsráðgjöf í öðrum greinum en getur falið einstökum leiðbeiningastöðvum / eða öðrum  slík verkefni samkvæmt samningum.

Framlög ríkissjóðs greiðast búnaðarsamböndum eða tilgreindum leiðbeiningarmiðstöðvum samkvæmt ákvörðunum búnaðarsambandanna.

Á samningstímanum verður unnið að frekari opnun á milli starfssvæða stöðvanna og hafi BÍ forgöngu um slíkt samstarf.

 6. gr.

Ráðgjafarmiðstöð BÍ og búnaðarsambanda

Hætt verður að greiða framlög vegna búrekstraráætlana í árslok 2011.  BÍ og búnaðarsamböndin móta síðan sérstök átaksverkefni sem hagfellt þykir að hafa um samrekstur.  Leggja skal áherslu á að koma rekstraráætlanagerð og aðstoð vegna skuldamála í þann farveg.

7. gr.

Greiðslur.

Árleg grunnframlög til héraðsþjónustunnar samkvæmt 3. gr. greinast í eftirfarandi þætti:

1.   Uppbætur á lífeyri fyrrverandi starfsmanna búnaðarsambandanna. Lífeyrishækkanir skiptast þannig að 65% eru sérgreind og taka breytingum í samræmi við skuldbindingar búnaðarsambandanna við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, en 35% greiðast af óskiptu grunnframlagi til rekstrar.

2.   Að lokinni ráðstöfun samkvæmt 1. tl. skal því sem óráðstafað er skipt á milli leiðbeiningarmiðstöðva, að jöfnu (50/50) í réttu hlutfalli við fjölda bænda annars vegar og álagt búnaðargjald hins vegar.

 

 III. KAFLI.

Búfjárrækt

8. gr.

Verkefni og framlög.

Bændasamtök Íslands ákveða nánar, í samráði við viðkomandi fagráð, skiptingu þeirra fjármuna sem renna til framkvæmdar á kynbótaskýrsluhaldi. Enn fremur skipta Bændasamtök Íslands fjármunum til kúasæðinga milli búnaðarsambanda.

 IV. KAFLI.

Þróunarverkefni — jarðabætur á lögbýlum

9. gr.

Verkefni og framlög.

Framlögum samkvæmt þessum lið mun á samningstímanum eingöngu verða varið til jarðræktar, og skulu þau renna í ræktunarsjóð, sem einnig nýtur framlaga samkvæmt gildandi samningum um starfsskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu. Bændasamtök Íslands setja nánari reglur um ráðstöfun þessa fjár, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir. Reglurnar skulu m. a. kveða á um verkefni sem framlög greiðast til, upphæðir framlaga og/eða hlutfall kostnaðar sem greitt er. Endurskoða má reglurnar árlega.

10. gr.

Umsóknir.

Skilyrði þess að verkefni njóti framlags eru að um það hafi verið sótt og með því mælt af viðkomandi búnaðarsambandi eða leiðbeiningarmiðstöð.

Bændasamtök Íslands auglýsa með fullnægjandi hætti (t.d. með auglýsingu í Bændablaðinu)  og með nægilegum fyrirvara hvaða verkefni og viðfangsefni á sviði jarðabóta geta notið framlags, hver séu skilyrði þess að framlag verði veitt og annað það sem telja verður æskilegt að upplýsa væntanlega umsækjendur um, þar með talið um umsóknarfrest, skil á umsóknum, rétt umsækjenda og meðferð kvartana hjá samtökunum. Umsóknum skal svarað eigi síðar en átta vikum eftir að umsóknafrestur rennur út, og skal koma fram í svarinu hvort fullt framlag verði veitt, eða hver verði lágmarksupphæð framlags, ef um skerðingu er að ræða.

Bændasamtök Íslands geta ákveðið að ekki sé þörf á umsóknum, heldur nægi að tilkynning um fyrirhugaða framkvæmd berist innan frests sem auglýstur er og síðan gildi úttekt samkvæmt almennum reglum hverju sinni. Umsóknum sem berast eftir að umsóknarfresti eða tilkynningarfresti lýkur skal vísað frá.

 11. gr.

Úttektir.

Úttektir á framkvæmdum, staðfestar af viðkomandi búnaðarsambandi/ leiðbeiningarmiðstöð, skulu berast Bændasamtökum Íslands fyrir 15. nóvember og skulu framlög greidd fyrir árslok. Heimilt er Bændasamtökum Íslands að ákveða, að nægilegt sé að úttektir fari einungis fram á tilviljunarkenndu úrtaki framkvæmda, ef framlög til þeirra nema lægri upphæð en 100 þúsund kr.

Nú ganga ekki öll framlög út á grundvelli samþykktra umsókna, til dæmis vegna þess að ekki varð af framkvæmd, og skal þá ónýttu fé deilt hlutfallslega jafnt á framkvæmdir innan hvers verkefnis, þó þannig að framlag til hvers umsækjanda sé í samræmi við reglur samningsins um hámark framlags. Nú er fé enn ónýtt og skal það þá fært til næsta árs og ráðstafað til verkefna samkvæmt tillögun Bændasamtaka Íslands, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir.

 

V. KAFLI.

Önnur ákvæði

12.gr.

Fjárhæðir.

Fjárhæðir í samningi þessum taka verðbreytingum samanber ákvæði 17. gr. um endurskoðun samnings þessa.

 13.gr.

Gjaldtaka vegna veittrar þjónustu til notenda.

Bændasamtök Íslands og aðrir aðilar sem fara með verkefni samkvæmt búnaðarlögum nr. 70/1998, geta tekið gjald fyrir þá þjónustu sem þau veita á grundvelli þessa samnings, sbr. heimild til slíkrar gjaldtöku í 3. mgr. 3. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 og samkvæmt gjaldskrám sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir.

 14.gr.

Ábyrgð.

Fjárhagsleg ábyrgð ríkisins vegna samningsins takmarkast við þær fjárhæðir sem eru tilgreindar í samningi þessum. Bændasamtök Íslands, búnaðarsambönd eða leiðbeiningarmiðstöðvar, eftir því sem við á, bera alla ábyrgð á framkvæmd samningsins gagnvart þeim sem fá framlög á grundvelli hans.

Við meðferð mála ber starfsmönnum Bændasamtaka Íslands að gæta hæfisákvæða 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 15.gr.

Eftirlit með samningi.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd samningsins. Bændasamtök Íslands skulu tilkynna ráðuneytinu hver fari með yfirstjórn framkvæmdar samningsins fyrir hönd samtakanna, og skulu aðilar fara árlega yfir framkvæmd hans.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skal hafa aðgang að öllum upplýsingum sem Bændasamtök Íslands skrá vegna framkvæmdar samningsins. Bændasamtökum Íslands ber að skrá hverjir eru viðtakendur framlaga sem þau ráðstafa á grundvelli samningsins, fjárhæð framlaga, verkefni sem framlög renna til og dagsetningu greiðslna. Bændasamtök Íslands skulu skrá sérstaklega formlegar kvartanir sem þeim berast vegna framkvæmdar samningsins og enn fremur hvaða meðferð kvartanir fá hjá samtökunum.

Bændasamtök Íslands skila árlega yfirliti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um heildarfjárhæðir greiddra framlaga og skulu fjárhæðir vera sundurgreindar á milli verkefna eða viðfangsefna sem framlags geta notið.

Bændasamtök Íslands halda fjárreiðum sem samningur þessi nær til aðgreindum í ársreikningi frá annarri starfsemi sinni.

Bændasamtök Íslands skila sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu ársreikningi sem færður er í samræmi við lög um ársreikninga nr. 144/1994, með síðari breytingum.

Samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun nr. 86/1997 hefur Ríkisendurskoðun heimild til eftirlits með framkvæmd samnings þessa.

 16.gr.

Meðferð ágreinings og beiting viðurlaga.

Vanefni Bændasamtök Íslands samningsbundnar skyldur sínar er heimilt að stöðva greiðslur tímabundið, enda hafi samningsaðilar fjallað um vanefndir þær sem um ræðir. Telji ráðherrar landbúnaðar og fjármála að vanefndir séu staðreyndar skal veita Bændasamtökum Íslands hæfilegan frest til úrbóta áður en ákvörðun er tekin um að stöðva greiðslur.

Komi til ágreinings milli samningsaðila vegna samnings þessa, skal skipuð sáttanefnd sem tekur ákvarðanir um lausn ágreiningsmála. Nefndin skal skipuð einum fulltrúa frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, einum frá fjármálaráðuneyti og tveimur frá Bændasamtökum Íslands. Hver aðili um sig ber kostnað af sínum fulltrúum. Rísi mál út af samningi þessum skal reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 17.gr.

Gildistími og endurskoðun.

Samningur þessi tekur gildi 1. janúar 2011 og gildir til 31. desember árið 2012. Samningurinn kemur til endurskoðunar á fyrri hluta ársins 2012 og skal þá framlengjast um minnst tvö ár.

Framlag ríkisins vegna ársins 2011 er á verðlagi fjárlaga fyrir það ár og tekur ekki frekari breytingum. Framlag ríkisins á árinu 2012 skal samkvæmt samningi þessum breytast í samræmi við launa- og verðlagsforsendur sem lagðar verða til grundvallar fjárveitingum í fjárlögum þess árs. Af framlagi ríkisins til Bændasamtaka Íslands samkvæmt samningnum skulu 65% teljast vera vegna launakostnaðar og 35% vegna annars kostnaðar. Framlag vegna launa skal taka breytingum í samræmi við mat fjármálaráðuneytis á hækkunum í kjarasamningum SFR hjá ríkisstofnunum. Fari fram endurmat á launa- og verðlagsforsendum fjárveitinga til ríkisstofnana innan ársins skal endurskoða framlag til Bændasamtaka Íslands með sama hætti. Framlag ríkisins vegna annars kostnaðar en launa skal breytast samkvæmt forsendum fjárlaga um almennar verðlagsbreytingar á sama kostnaði hjá ríkisstofnunum, þar með talið framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

 

Fjárhæðir í samningnum eru settar fram með fyrirvara um ákvörðun Alþingis um fjárveitingu í fjárlögum og með fyrirvara um að stjórnvöld kunna að ákveða aðrar viðmiðanir við undirbúning fjárlaga vegna aðstæðna í ríkisfjármálum á hverjum tíma. Þannig er heimilt að gera ráð fyrir aðhaldi í rekstri þeirra verkefna sem samningurinn tekur til á sama hátt og hjá ríkisstofnunum og öðrum aðilum sem annast um sambærilega starfsemi, taki stjórnvöld ákvörðun um það við gerð fjárlaga.

  

Samningur þessi er gerður í þremur samhljóða eintökum eitt frumrit skal vera í vörslu Bændasamtaka Íslands, eitt í vörslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og eitt í vörslu fjármálaráðuneytisins.

 

 Reykjavík,  20. október 2010.

 

 

F.h. Bændasamtaka Íslands

 

                                                                        ­­­______________________________

Haraldur Benediktsson                                Jón Bjarnason
                                                                          sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

                                                                         _______________________________

 Sveinn Ingvarsson                                      Steingrímur J. Sigfússon
                                                                         fjármálaráðherra

 

                                                         

Eiríkur Blöndal

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Bókun um Framleiðnisjóð landbúnaðarins

 

Samningur þessi er gerður í skugga hins alvarlega efnahagsástands, sem krefst mikils niðurskurðar á útgjöldum ríkisins. Ákvörðun um svo mikinn niðurskurð á framlögum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, sem fram kemur í samningnum, er m.a. tekin með hliðsjón af því að sjóðurinn geti haldið úti nokkurri starfsemi í tvö ár með því að ganga á eigið fé.

Samningsaðilar eru hins vegar sammála um mikilvægi þess að landbúnaðurinn hafi þróunarsjóð, ekki síður en aðrar atvinnugreinar sem slíka sjóði hafa, og munu beita sér fyrir því, í tengslum við endurskoðun samningsins á árinu 2012, að treysta fjárhag sjóðsins og skoða í því sambandi meðal annars hvernig tryggja megi honum fasta tekjustofna.

 

 

Bókun um lífeyrisskuldbindingar

 

Aðilar eru sammála um að við næstu endurskoðun samningsins á árinu 2012 verði sérstaklega tekið til athugunar hvernig mæta skuli skuldbindingum við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vegna fyrrverandi starfsmanna Bændasamtaka Íslands og búnaðarsambandanna, sem aðild eiga að B-deild sjóðsins.

 

 

Bókun fjármálaráðherra vegna Lífeyrissjóðs bænda

 

Í 4. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, segir að iðgjöld sjóðsfélaga skuli vera að lágmarki 4% af reiknuðum launum þeirra og að mótframlag í sjóðinn skuli greitt af sjóðfélaga sé ekki samið um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Ríkissjóður hefur um langt skeið greitt mótframlag í sjóðinn á grundvelli ákvæða í fjárlögum, en ekki hefur verið samið um slík framlög í búvörusamningi. Nú liggur fyrir að ríkissjóður muni láta af greiðslum til lífeyrissjóðsins og mun því mótframlag í sjóðinn verða greitt af sjóðsfélögum í framtíðinni.

Með það fyrir augum að auðvelda Lífeyrissjóði bænda og sjóðsfélögum þá umbreytingu sem breytt fyrirkomulag á greiðslu mótframlags hefur í för með sér, er áformað að ríkissjóður greiði til lífeyrissjóðsins 294 m.kr. einskiptis framlag sem sjóðurinn mun nýta til að aðvelda aðlögun sjóðsfélaga að breyttu fyrirkomulagi þannig að sjóðurinn verði sjálfbær til framtíðar.

 

 

 

 

 

.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta