Stuðningur Dana við aðildarumsóknina að ESB
Forsætisráðherrar Íslands og Danmerkur funduðu í gær í Þingvallabústaðnum, ásamt embættismönnum. Rætt var um stöðu efnahagsmála, bæði á Íslandi og í Danmörku, svo og stöðu efnahagsmála í Evrópu. Danski forsætisráðherrann taldi sérstaklega aðdáunarvert hvernig Íslandi hefði tekist til í efnahagsmálum og endurreisn eftir fjármálahrunið 2008. Það hefði náðst mjög góður árangur á þeim skamma tíma sem liðinn væri og þetta væri árangur sem mörg önnur ríki gætu litið til í sínum efnahagserfiðleikum.
Danir hafa nú nýlokið formennsku í Evrópusambandinu og ræddu forsætisráðherrarnir um þróun mála í sambandinu og samningaferli Íslands. Mjög gott samstarf hefur verið við Dani í formennskutíð þeirra og jafnt og þétt verið unnið að því að opna samningskafla. Jóhanna Sigurðardóttir þakkaði Helle Thorning-Schmidt sérstaklega fyrir stuðning og áhuga danskra stjórnvalda: „Við höfum átt mjög gott samstarf við Dani og það er mjög ákveðin stefna dönsku stjórnarinnar, meira að segja áréttað í stjórnarsáttmála, að styðja Ísland í sínu samningaferli. Við munum halda áfram nánum tengslum við Dani nú eftir formennskutíma þeirra og halda áfram góðri samvinnu til að stuðla að sem bestum samningum og lausnum.“
Forsætisráðherrarnir ræddu einnig um málefni norðurslóða og Norðurskautsráðsins, en bæði Ísland og Danmörk hafa sett sér norðurslóðastefnu og átt mjög gott samstarf á þeim vettvangi. Forsætisráðherrarnir ræddu einnig um makríldeiluna, en Færeyjar, sem eru hluti danska konungsríkisins, hafa uppi kröfur sem strandríki, ásamt Íslandi, Noregi og ESB vegna skiptingu veiðiheimilda í makríl.
Að loknum fundinum á Þingvöllum heimsótti forsætisráðherra Danmerkur forseta Alþingis og skoðaði Alþingishúsið, en forsætisráðherrahjónin héldu síðan kvöldverð til heiðurs danska forsætisráðherranum í Þjóðmenningarhúsinu. Eftir kvöldverðinn var sýningin „Handritin“ í Þjóðmenningarhúsi skoðuð, en þar eru ýmis merkustu skinnhandritin frá miðöldum, svo sem Konungsbækur Eddukvæða og Snorra Eddu, Flateyjarbók og fleiri handrit.
Forsætisráðherra Dana fór af landi brott í morgun ásamt sendinefnd, áleiðis til Grænlands.